logo-for-printing

11. september 2014

Samkomulag um tryggingasamninga sem fela í sér sparnað erlendis

Bygging Seðlabanka Íslands

Samkomulag um tryggingasamninga sem fela í sér sparnað erlendis, sbr. reglur nr. 565/2014 um gjaldeyrismál

Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag varðandi samninga sem Allianz á Íslandi hefur boðið viðskiptavinum sínum hér á landi.

Samkomulagið gerir erlenda tryggingafélaginu og viðskiptavinum þess hér á landi kleift að viðhalda óbreyttu samningssambandi og kemur þannig í veg fyrir mögulegt tjón neytenda samhliða því að draga úr neikvæðum áhrifum samninganna á greiðslujöfnuð Íslands. Með því er stuðlað að frekari stöðugleika í greiðslujafnaðar- og gengismálum hér á landi, í samræmi við markmið laga um gjaldeyrismál og reglna settra á grundvelli þeirra.

Þá er markmiðið enn fremur að stuðla að jafnræði meðal aðila á sama markaði en reiknað er með að sá rammi, sem liggur til grundvallar samkomulaginu, verði hafður til hliðsjónar varðandi möguleika á hliðstæðu fyrirkomulagi fyrir innlenda aðila sem vilja bjóða sambærilegar afurðir. Þó er ljóst að tekið gæti einhvern tíma að vinda að fullu ofan af því ójafnræði sem skapast hafði.

Til að draga úr neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð Íslands felst í samkomulaginu að tryggingafyrirtæki komi með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við yfir helming framtíðariðgjaldagreiðslna sem fara úr landi á grundvelli núgildandi samninga yfir gildistíma samkomulagsins. Geri tryggingafélag nýja samninga kemur það með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við framtíðariðgjaldagreiðslur sem fara úr landi á grundvelli þeirra samninga yfir gildistíma samkomulagsins.

Seðlabankinn væntir þess að með samkomulaginu í dag verði stigið stórt skref til að eyða þeirri óvissu sem fjöldi neytenda hefur búið við síðustu mánuði, jafnframt því sem stuðlað er að jákvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð landsmanna og þar með auknum stöðugleika í efnahagslífi í landinu.

Nánari upplýsingar veitir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri í síma 5699600.

 

Nr. 32/2014

11. september 2014

Til baka