Samningar og samstarf
Seðlabanki Íslands á í samstarfi við ýmsa aðila bæði hérlendis og erlendis. Stjórnskipulega heyrir Seðlabankinn undir forsætisráðuneyti. Þá á Seðlabanki Íslands í samskiptum við Alþingi Íslendinga, en það kýs bankaráð sem hefur m.a. eftirlit með starfsemi bankans. Seðlabankinn á einnig í ýmiss konar samstarfi við fleiri innlenda aðila vegna upplýsingasöfnunar, upplýsingamiðlunar og skýrslugerðar um efnahags-, peninga- og gjaldeyrismál á Íslandi. Þessir aðilar eru m.a. Hagstofa Íslands, Nasdaq Iceland hf., auk ýmissa aðila á fjármálamarkaði, á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands á gott samstarf við fjármálaeftirlit Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur og hefur enn fremur fastan áheyrnarfulltrúa í þremur evrópskum eftirlitsstofnunum: EBA sem annast bankaeftirlit, EIOPA sem sér um eftirlit á sviði vátrygginga og lífeyrissjóða og ESMA sem annast eftirlit á verðbréfamarkaði. Auk þess að eiga aðild að Alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita (IAIS), Alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita (IOSCO), Alþjóðlegum framkvæmdahópi sem vinnur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (FATF) og Samstarfshópi um fjármálastöðugleika milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NBSG).
Samningur milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands um lánaumsýslu ríkissjóðs - 29. janúar 2019
Samkomulag um samstarf á milli fjármálaeftirlita, seðlabanka og fjármálaráðuneyta í ESB um fjármálastöðugleika á milli landa - viðbót er varðar þau lönd á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki eru í ESB, þ.e. Ísland, Liechtenstein og Noregur - 10. júní 2010
Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins og Nasdaq Iceland um samstarf við framkvæmd eftirlitsverkefna og upplýsingamiðlun - 15. apríl 2016