logo-for-printing

12. september 1997

Skýrsla bankaeftirlits Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóði fyrir árið 1996

Skýrsla bankaeftirlits Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóði hefur nú verið gefin út í sjötta sinn. Hún er unnin upp úr ársreikningum lífeyrissjóða fyrir árið 1996 og tryggingafræðilegum athugunum á lífeyrissjóðum.
Í árslok 1996 voru starfandi lífeyrissjóðir 66 og hafði þeim fækkað um 9 á árinu. Af 66 lífeyrissjóðum tóku 9 ekki lengur við iðgjöldum, þannig að fullstarfandi sjóðir voru 57. Af 66 lífeyrissjóðum voru 56 sameignarsjóðir og 10 séreignasjóðir. Af sameignarsjóðum voru 5 með ábyrgð ríkissjóðs, 9 með ábyrgð sveitarfélaga, 2 með ábyrgð ríkisbanka, 3 með ábyrgð hlutafélaga og 37 án ábyrgðar annarra.

Helstu niðurstöður skýrslunnar
Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 1996 nam 306,5 ma.kr. samanborið við 262,6 ma.kr. í árslok 1995. Aukningin á árinu var 16,7% sem samsvarar 14,3% raunaukningu miðað við hækkun vísitölu neysluverðs. Ráðstöfunarfé skv. sjóðstreymi á árinu 1996 nam samtals 62,7 ma.kr. samanborið við 46,8 ma.kr. árið á undan. Raunávöxtun eigna allra lífeyrissjóðanna á árinu 1996 var 7,8% en 6,9% árinu 1995. Hrein raunávöxtun eigna allra lífeyrissjóðanna á árinu 1996 reyndist vera 7,6% miðað við hækkun neysluverðsvísitölu en 6,6% á árinu 1995. Á árinu 1996 námu iðgjöld samtals 19 ma.kr. en 17 ma.kr. árið 1995. Á árinu 1996 nam gjaldfærður lífeyrir 9,3 ma.kr. en 8,4 ma.kr. árið 1995. Kostnaður á árinu 1996, þ.e. rekstrargjöld að frádregnum rekstrartekjum, nam samtals 747 m.kr. en sambærileg fjárhæð á árinu 1995 var 691 m.kr. Sem hlutfall af eignum, þ.e. meðaltali hreinnar eignar til greiðslu lífeyris, nam kostnaður 0,3% árið 1996 sem er sama hlutfall og árið 1995 fyrir lífeyrissjóðina í heild.

Tölulegar upplýsingar

Nr. 24/1997
12. september 1997

Til baka