logo-for-printing

16. maí 2002

Seðlabanki Íslands lækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka ávöxtun í endurhverfum viðskiptum bankans við lánastofnanir um 0,5 prósentur frá næsta uppboði á endurhverfum verðbréfasamningum sem haldið verður þriðjudaginn 21. maí n.k. Bankinn hefur þar með lækkað stýrivexti sína um 1,3 prósentur frá 1. apríl sl. og um 2,1 prósentu frá því í nóvember sl. Daglánavextir bankans verða einnig lækkaðir um 0,5 prósentur frá 21. maí n.k. en vextir á innstæðum á viðskiptareikningum lánastofnana í bankanum verða lækkaðir um 0,2 prósentur.
Í ársfjórðungsriti bankans Peningamálum sem gefið var út 7. maí sl. var sagt að yrði allri óvissu um að núverandi kjarasamningar héldu eytt í þessum mánuði myndi bankinn að öllum líkindum lækka vexti sína skjótt í kjölfarið. Þessari óvissu hefur nú verið eytt þar eð vísitala neysluverðs í maí var undir viðmiðuninni sem sett var í samkomulagi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í desember sl. Um frekari rökstuðning að baki vaxtalækkuninni vísast til greiningarinnar í Peningamálum. Hjaðni verðbólgan áfram í samræmi við spá Seðlabankans sem birt var í Peningamálum mun Seðlabankinn að óbreyttu lækka vexti sína frekar á komandi mánuðum.
Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

 

Nr. 17/2002
16. maí 2002

Til baka