logo-for-printing

30. september 2002

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans var haldinn um helgina í Washington. Jafnframt var haldinn haustfundur Fjárhagsnefndar sjóðsins (International Monetary and Financial Committee). Í nefndinni sitja 24 fulltrúar sem eru ráðherrar eða seðlabankastjórar þeirra ríkja sem gegna formennsku í einstökum kjördæmum sjóðsins. Formaður nefndarinnar er Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands. Ísland fer með formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um þessar mundir. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, er fulltrúi kjördæmisins í nefndinni og gerði grein fyrir sameiginlegri afstöðu ríkjanna til viðfangsefna fundarins.
Í ræðu sinni fjallaði Geir H. Haarde um þróun og horfur í heimsbúskapnum. Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi frjálsra viðskipta og að skilvirkt stjórnarfar væri lykilatriði í framþróun ríkja. Í umfjöllun um stefnumál Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði fjármálaráðherra áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir fjármálakreppur. Fjármálaráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisrekstri. Einnig áréttaði hann nauðsyn þess að stefna og verklag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru gagnsæ og aðgengileg almenningi og fagnaði árangri sem náðst hefur á því sviði.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynnti í síðustu viku nýja efnahagsspá þar sem gert er ráð fyrir minni hagvexti en fyrri spár gáfu til kynna. Á ársfundinum var sérstök áhersla lögð á leiðir til að komast hjá fjármálakreppum og aðgerðir til að vinna að úrlausn þeirra. Á fundinum voru þróunarmál rædd, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafa í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir lagt aukna áherslu á þennan málaflokk. Þá var fjallað um áætlun til að sporna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Loks voru rædd ýmis mál sem snúa að starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ræða Geirs H. Haarde fjármálaráðherra er birt í heild sinni á vefsíðum fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands ásamt sameiginlegri fréttatilkynningu fundarins.

Nr. 34/2002
30. september 2002

Til baka