logo-for-printing

12. maí 2004

Már Guðmundsson ráðinn til Alþjóðagreiðslubankans í Basel

Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri og staðgengill framkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss (Deputy Head of the Monetary and Economics Department of the Bank for International Settlements, BIS). Í stöðunni felast stjórnunarstörf, rannsóknir og þátttaka í yfirstjórn stofnunarinnar, auk þátttöku í ráðstefnum og fundum fyrir hönd BIS. Már hefur störf hjá BIS undir lok júní.

Alþjóðagreiðslubankinn er í eigu fjölmargra seðlabanka. Hann er í senn banki seðlabankanna og mikilvæg rannsókna- og greiningarstofnun á sviðum sem lúta að starfsemi seðlabanka, ekki síst peningamálum og varðandi fjármálastöðugleika. Bankinn er einnig vettvangur margháttaðs alþjóðlegs samstarfs seðlabanka og á sviði eftirlits með fjármálastarfsemi. Nægir í því sambandi að nefna undirbúning reglusetningar um eiginfjárhlutföll banka auk þess sem í bankanum hafa verið bækistöðvar fjármálastöðugleikaráðsins (Financial Stability Forum) sem sett var á laggirnar fyrir nokkrum árum.

Í ráðningunni felst mikil persónuleg viðurkenning fyrir Má Guðmundsson og um leið viðurkenning fyrir Seðlabanka Íslands. 

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar og Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569-9600.

Nr. 11/2004
12. maí 2004

Til baka