logo-for-printing

19. júlí 2005

Ársskýrsla Moody's

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s Investors Service staðfesti í dag lánshæfis­einkunn Íslands, Aaa. Eftirfarandi er lausleg þýðing á fréttatilkynningu sem var birt 19. júlí

 

Í árlegri skýrslu matsfyrirtækisins Moody’s Investors Service um Ísland segir að lág skuldastaða hins opinbera og óvenju sveigjanlegt hagkerfi séu á meðal þeirra þátta sem Aaa lánshæfiseinkunn landsins er byggð á. Íslenska hagkerfið hefur hins vegar tilhneigingu til efnahagssveiflna og hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru umtalsverðar.

 

Höfundur skýrslunnar, Joan Feldbaum-Vidra, bendir á að áður fyrr hafi mikilvægi sjávarútvegsins verið meginorsök efnahagssveiflna.  Síðasta áratuginn hafa sveiflur hins vegar farið af stað vegna erlendra fjárfestinga í stóriðju sem hagnýta lágt orkuverð og umhverfisvæna virkjunarkosti Íslands, þ.e. fallvatna- og gufuaflsvirkjanir.

 

Samkvæmt matsfyrirtækinu hafa yfirstandandi fjárfestingar erlendra aðila í áliðnaði, sem eru þær umfangsmestu í sögu landsins, og þær kerfisbreytingar sem átt hafa sér stað í fjármálakerfinu leitt til örrar útlánaþenslu, mikillar erlendrar skuldasöfnunar og verulegs vöruskipta- og viðskiptahalla.

 

Sérfræðingur Moody’s bendir á að búast megi við að viðskiptahallinn árið 2005 nemi meiru en  12%  af VLF vegna innflutnings í tengslum við stóriðjuframkvæmdir, gengishækkunar sem hefur aukið innflutning en dregið úr samkeppnishæfni í sumum útflutnings­greinum og ört vaxandi einkaneyslu sem fjármögnuð er með lánsfé.  Sérfræðingur Moody’s lagði áherslu á að erlendar skuldir ættu töluverðan þátt í viðskiptahallanum, þar sem hreinar þáttagreiðslur næmu 2,5% af VLF.

 

Í nánustu framtíð er meginviðfangsefni efnahagsstjórnar að stilla vandlega saman stefnuna í ríkisfjármálum, peningamálum og launamálum  til að hafa hemil á fjármálaáhættunni sem útlánaþenslan gæti haft í för með sér, að mati Feldbaum-Vidra. Umfang stóriðjufjárfestinganna kallar á aðhald í ríkisfjármálum sem gæti létt það aðhald sem peningastefnan hefur þurft að axla.

 

Þrátt fyrir þetta telur sérfræðingur Moody’s lánshæfiseinkunnina Aaa vera trausta í ljósi góðrar skuldastöðu hins opinbera, mikillar atvinnuþátttöku, lítils atvinnuleysis, hagstæðrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og afar stöndugs lífeyrissjóðskerfis. Skuldir hins opinbera námu aðeins 36% af VLF í lok árs 2004 og er samanburðurinn hagstæður þegar litið er til annarra iðnvæddra þjóða sem hafa lánshæfiseinkunnina Aaa þar sem skuldir hins opinbera eru að meðaltali 57% af VLF.

 

Þótt svo geti farið að ekki takist að ná mjúkri lendingu í lok núverandi uppsveiflu, telur Feldbaum-Vidra fjármál hins opinbera nægilega sterk til að geta tekist á við afleiðingarnar. Sérfræðingur Moody’s bætir við að íslenska hagkerfið hafi áður sýnt mikinn sveigjanleika, sérstaklega vinnumarkaðinum, til að vinna sig út úr óhagstæðum skilyrðum. Þessi eiginleiki hagkerfisins mun draga úr líkunum á því að aðlögunin verði löng og erfið.

 

Breið samstaða Íslendinga um stjórn efnahagsmála og félagsleg gildi hefur lagt grunninn að eftirtektarverðum árangri í því að tryggja sjálfbæra efnahagsþróun, sagði sérfræðingurinn.

 

Skýrsla matsfyrirtækisins, Ísland: 2005 lánshæfisgreining er árleg endurskoðun í þágu markaðsaðila og felur ekki í sér breytingar á lánshæfismatinu.

 

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar í síma 569-9600.

 

Nr. 20/2005

19. júlí 2005

Til baka