logo-for-printing

08. september 2005

Gjaldeyriskaup vegna endurgreiðslna á erlendum lánum ríkissjóðs

Í ljósi bættrar greiðslustöðu ríkissjóðs hefur fjármálaráðherra ákveðið að greiða meira af erlendum lánum ríkissjóðs en áður hafði verið áformað. Til þess að mæta þörf ríkissjóðs fyrir erlendan gjaldeyri án þess að gengið verði á gjaldeyrisforða Seðlabankans mun bankinn auka regluleg gjaldeyriskaup sín á innlendum millibankamarkaði. Frá 12. september nk. til loka ársins mun bankinn kaupa 10 milljónir Bandaríkjadala í viku hverri til viðbótar þeim 2,5 milljónum dala sem keyptar hafa verið vikulega það sem af er ári til þess að mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs. Framkvæmdin verður þannig að Seðlabankinn mun daglega kaupa gjaldeyri á innlendum millibankamarkaði fyrir 2,5 milljónir Bandaríkjadala. Bankinn mun leita tilboða hjá viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði fyrir opnun viðskipta að morgni.

Samtals er áætlað að kaupa 160 milljónir Bandaríkjadala til ársloka og mun þessu fé sem fyrr segir verða varið til endurgreiðslna á erlendum lánum ríkissjóðs.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar í síma 569-9600.

 

Nr. 26/2005
8. september 2005


Til baka