logo-for-printing

11. nóvember 2005

Breyting á sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands frá 27. mars 2001

Í dag undirrituðu forsætisráðherra og bankastjórn Seðlabanka Íslands samkomulag um breytt orðalag á 11. tölulið yfirlýsingar um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu frá 27. mars 2001. Hann hljóðar nú sem hér segir: 

11. Seðlabankinn gerir verðbólguspár þar sem spáð er a.m.k. tvö ár fram í tímann. Spárnar skulu birtar í riti bankans Peningamálum. Þar skal einnig koma fram mat bankans á helstu óvissuþáttum tengdum spánni. Jafnframt mun bankinn gera grein fyrir mati sínu á stöðu og horfum í efnahagsmálum. 

Að öðru leyti er yfirlýsingin frá 27. mars 2001 óbreytt. Hún var m.a. birt í Peningamálum 2001/2. 

Áformað er að frá og með árinu 2006 gefi Seðlabankinn út þrjú hefti Peningamála á ári í stað fjögurra. Í hverju hefti verður verðbólgu- og þjóðhagsspá. Misjafnt er hve oft seðlabankar með verðbólgumarkmið gefa út skýrslur með verðbólguspám. Algengast er að það sé gert fjórum sinnum á ári en dæmi eru um þrjár, svo sem í Noregi. 

Gríðarleg vinna liggur að baki vönduðum verðbólgu- og þjóðhagsspám og gerð fjögurra spáa á ári gerir það m.a. að verkum að minna færi gefst til mikilvægra rannsókna til styrkingar spágerðinni en nauðsynlegt verður að telja. 

Seðlabankinn telur að útgáfa þriggja hefta Peningamála ásamt öðru efni sem bankinn birtir reglulega fullnægi kröfum um miðlun upplýsinga um mat bankans á framvindu og horfum í efnahags- og peningamálum. 
Frá og með árinu 2006 hefur bankastjórn jafnframt ákveðið að taka upp formlega vaxtaákvörðunardaga. Meðal þeirra verða útgáfudagar Peningamála. Á vaxtaákvörðunardögum öðrum en útgáfudögum Peningamála mun bankinn birta frétt um ákvörðun bankastjórnar sem inniheldur rökstuðning að baki henni. 

Breytingum þessum verður lýst nánar í Peningamálum 2005/4 sem gefin verða út föstudaginn 2. desember n.k. 

Nánari upplýsingar veitir Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 34/2005

11. nóvember 2005

Til baka