logo-for-printing

18. maí 2006

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentur í 12,25%. Ákvörðun bankans er tekin í ljósi þess að verðbólguhorfur, bæði til lengri og skemmri tíma, hafa versnað mjög að óbreyttum stýrivöxtum. Í inngangi Peningamála 2006/1 sem gefin voru út 30. mars sl. kom fram að Seðlabankinn kynni að þurfa að hækka vexti verulega til viðbótar vaxtahækkuninni sem þá var ákveðin á grundvelli fyrirliggjandi verðbólguspár. Gengi krónunnar hefur lækkað umtalsvert frá því að sú spá var gerð, verðbólga aukist og verðbólguhorfur því versnað enn frekar. Mikill halli á utanríkisviðskiptum á fyrsta fjórðungi ársins bendir til þess að krónan geti orðið undir þrýstingi á næstu mánuðum. Til þess að vinna á móti áhrifum þessa á verðbólgu er nauðsynlegt að peningastefnan verði afar aðhaldssöm á næstunni.
Flestir hagvísar benda til þess að eftirspurn hafi enn vaxið ört það sem af er árinu. Innflutningur neysluvöru og veltutölur benda til þess að einkaneysla hafi vaxið hratt. Enn sjást ekki merki þess að hægt hafi á vexti útlána banka og sparisjóða. Þrátt fyrir fréttir um minnkandi umsvif og einstök dæmi um verðlækkun fasteigna eru enn ekki skýrar vísbendingar um að íbúðamarkaðurinn sé farinn að kólna. Atvinnuleysi heldur áfram að minnka og atvinna jókst hraðar á fyrsta fjórðungi ársins en áður hefur sést í vinnumarkaðskönnunum. Ásamt versnandi verðbólguhorfum eykur það hættu á að launaþróun fari úr böndunum.

Framvinda efnahagsmála frá marslokum bendir til þess að umtalsverða hækkun stýrivaxta þurfi til að peningastefnan veiti nægilegt aðhald. Auknar verðbólguvæntingar hafa leitt til lækkunar raunstýrivaxta. Að auki dregur lægra gengi krónunnar úr aðhaldi í samkeppnisgreinum. Vaxtahækkun Seðlabankans nú er ætlað að bregðast við þessum aðstæðum. Staðfastur ásetningur bankastjórnar Seðlabankans er að ná verðbólgumarkmiðinu innan ásættanlegs tíma.

Nr. 19/2006
18. maí 2006

Til baka