logo-for-printing

30. júní 2009

Nýjar reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Nýjar reglur munu taka gildi 1. júlí næstkomandi. Tilgangur með endurskoðun reglnanna er að skýra betur þá fyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitir fjármálafyrirtækjum.

Nýju reglurnar eru í grundvallaratriðum svipaðar og eldri reglur, nr. 808 frá 22. ágúst 2008. Tvær breytingar frá eldri reglum hafa þó verið gerðar sem nauðsynlegt er að skýra sérstaklega. Í fyrsta lagi eru settar strangari reglur um þær tryggingar sem eru hæfar í viðskiptum við Seðlabankann. Hæfar tryggingar í viðskiptum við Seðlabanka Íslands eru nú einkum íbúðabréf Íbúðalánasjóðs, ríkisbréf og ríkisvíxlar. Í öðru lagi eru í nýju reglunum ákvæði sem veita Seðlabankanum víðtækari og skýrari heimildir til stýra lausu fé á markaði.

Skilmálar verða birtir á vefsíðu Seðlabankans og greina þeir nánar frá útfærslu reglnanna.

Nánari upplýsingar veitir Gerður Ísberg aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs í síma 569-9600.


Nr. 19/2009
30. júní 2009

Til baka