logo-for-printing

02. júlí 2009

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Sterkari króna forsenda áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 12% og vöxtum á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja í 9,5%.

Bakgrunnur ákvörðunarinnar er að gengi krónunnar hefur verið umtalsvert lægra en nefndin taldi viðunandi í mars, eins og fram kom í fundargerð þá. Verðbólga og verðbólguvæntingar hafa einnig aukist. Framboð lausafjár á peningamarkaði hefur aukist undanfarna mánuði og hafa markaðsvextir verið lægri en stýrivextir.

Peningastefnunefndin leggur áherslu á að stuðla að stöðugleika krónunnar, bæði á meðan höft á fjármagnshreyfingar eru til staðar og þegar þau verða afnumin. Á meðan höftin eru fyrir hendi hafa utanríkisviðskipti umtalsverð áhrif á gengi krónunnar. Þrátt fyrir bata í vöru- og þjónustujöfnuði hefur rýrnun viðskiptakjara og verulegar árstíðarbundnar vaxtagreiðslur til erlendra aðila haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð. Í ljósi þess er mikilvægara en ella að nægur hvati sé til staðar til þess að halda eignum í krónum, sem mælir gegn frekari lækkun vaxta.

Hækkun vísitölu neysluverðs um 1,4% í júní og aukning tólf mánaða verðbólgu úr 11,6% í maí í 12,2%, má að mestu leyti rekja til umtalsverðrar gengislækkun krónunnar frá marsmánuði og nýlegrar hækkunar óbeinna skatta. Að áhrifum skattabreytinga undanskildum hækkaði vísitalan um 1% milli mánaða og um 11,5% frá fyrra ári. Þriggja mánaða verðbólga á árskvarða jókst einnig umtalsvert. Árstíðarleiðrétt mældist hún 9,5%, eða 6,3% að áhrifum skattabreytinga frátöldum, eftir að hafa verið nær engin nýlega. Verðbólga á öðrum fjórðungi ársins 2009 var því nokkru meiri en í grunnspánni sem birtist í síðustu Peningamálum. Eigi að síður er þess að vænta að annarrar umferðar áhrif verði takmörkuð sakir óvenju mikils slaka á vinnu- og vörumörkuðum. Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa nýlega samþykkt, verða helstu kjarasamningar framlengdir til ársins 2010. Það dregur úr hættu á launabólgu.

Frá síðustu stýrivaxtaákvörðun hefur töluvert miðað áleiðis á nokkrum vígstöðum. Í fyrsta lagi hefur verið lögð fram langtímaáætlun um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Slík áætlun skapar svigrúm til að draga úr peningalegu aðhaldi, því hún eykur traust á sjálfbærni fjármála hins opinbera og gerir þar með ríkisskuldabréf að vænlegri fjárfestingarkosti, jafnvel þótt vextir lækki nokkuð. Hún stuðlar einnig að auknum viðskiptaafgangi með því að draga úr innlendri eftirspurn. Í öðru lagi hefur endurskipulagningu innlends fjármálakerfis miðað áleiðis og stærstu bankarnir verða endurfjármagnaðir um miðjan júlí. Ný löggjöf um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu
þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja og lög um Bankasýslu ríkisins munu einnig auðvelda enduruppbyggingu fjármálakerfisins og atvinnulífsins. Að lokum hefur tvíhliða lánasamningum við hin Norðurlöndin verið lokið og efnahagsáætluninni, sem unnið er að í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, miðar áfram.

Skuldastaða hins opinbera og þjóðarbúsins í heild er að skýrast sem ætti að draga úr áhættuálagi á innlendar fjáreignir. Það mun styðja við þá viðleitni að draga smám saman úr gjaldeyrishöftum, sem áætlað er að hefjist með afnámi hafta á nýjar fjárfestingar, án þess að tefla stöðugleika krónunnar í tvísýnu. Á meðan þessu ferli stendur mun peningastefnunefndin fylgjast grannt með áhrifum aðgerða sinna á gengi krónunnar og verðbólgu. Það gæti falið í sér hækkun vaxta kalli aðstæður á slíkt.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt 13. ágúst 2009.


Nr. 22/2009
2. júlí 2009

Til baka