logo-for-printing

31. desember 2009

Horfum breytt úr neikvæðum í stöðugar eftir samþykkt Icesave-frumvarpsins

Hér fer á eftir lausleg þýðing á frétt frá Standard & Poor's:

Lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands staðfest: Horfum breytt úr neikvæðum í stöðugar eftir samþykkt Icesave-frumvarpsins

• Alþingi hefur samþykkt Icesave-samninginn og mun það skref stuðla verulega að því að tryggja nauðsynlegt erlent fjármagn á árinu 2010.
• Við höfum endurskoðað horfur okkar fyrir lánshæfismat ríkissjóðs í stöðugar úr neikvæðum.
• Við staðfestum lánshæfiseinkunn okkar fyrir erlendar skuldbindingar „BBB-/A-3“ og lánshæfiseinkunn fyrir innlendar skuldbindingar „BBB+/A-2“.
• Í stöðugum horfum vegast á erfiðleikar sakir hins háa skuldahlutfalls hins opinbera og viðkvæm ytri staða annars vegar og sannfæring okkar um að íslenska þjóðarbúið og stofnanir þess búi yfir þeim sveigjanleika sem þarf til að glíma við þessa erfiðleika hins vegar.

Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s tilkynnti í dag, 31. desember 2009, að það hefði breytt horfum á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Á sama tíma staðfesti fyrirtækið einkunnir sínar fyrir skuldbindingar ríkissjóðs til langs og skamms tíma, „BBB-/A-3“ fyrir erlendar skuldbindingar og „BBB+/A-2“ fyrir innlendar skuldbindingar. BBB- matið fyrir skipti- og breytanleika var einnig staðfest (e. transfer and convertibility assessment).

Endurskoðunin á horfunum byggist á því að 30. desember 2009 samþykkti Alþingi frumvarp um ríkisábyrgð fyrir láni frá hollenskum og breskum stjórnvöldum til tryggingasjóðs innstæðueigenda. Með þessu láni uppfyllir Ísland skuldbindingar sínar um að bæta eigendum Icesave-innstæðna í útibúum hins gjaldþrota Landsbanka í Hollandi og Bretlandi. Við væntum þess að forseti Íslands muni undirrita lögin þegar þar að kemur.

„Þótt samþykkt Alþingis á Icesave-samningnum muni auka verulega á almenna skuldabyrði ríkissjóðs er hún mikilvægt skref í þá átt að hægt verði að greiða út allt að 2,3 milljarða evra lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tvíhliða lánin frá Norðurlöndunum,“ segir Moritz Kraemer sérfræðingur hjá Standard og Poor´s. Þessir fjármunir munu styrkja lausafjárstöðu Íslands, sem er ennþá veik, með því að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans (nú u.þ.b. 2,5 milljarðar evra). Með því að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn eru sköpuð skilyrði til þess að mögulegt verði að losa um þau gjaldeyrishöft sem voru sett síðla í nóvember 2008.

Meðal annarra mikilvægra og jákvæðra tíðinda sem nefna má er að lokið hefur verið við endurskipulagningu gjaldþrota banka og samþykkt hefur verið aðhaldssamt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010, sem er stutt metnaðarfullri aðhaldsáætlun næstu misserin í því skyni að koma halla ríkissjóðs sem nú nemur um 13% af vergri landsframleiðslu (áætlaður 2009) aftur í jafnvægi árið 2013. Þó að við teljum óvíst að þetta markmið náist gerum við ráð fyrir að áætlunin í ríkisfjármálum haldi heildarskuldum ríkissjóðs innan við 130% af vergri landsframleiðslu árið 2010, en eftir þann tíma álítum við að þær lækki smám saman. Ef staðið verður við hina aðhaldssömu áætlun í ríkisfjármálum árið 2010 og næstu ár þar á eftir verður hámark hreinna skulda ríkissjóðs að okkar mati áfram nálægt 100% af vergri landsframleiðslu. Þessar ályktanir byggjast á því að það takist að losa um höft á fjármagnshreyfingar án þess að það leiði til gengisfalls íslensku krónunnar að nýju, enda mundi það ekki aðeins leiða til hækkunar erlendra skulda í íslenskum krónum talið, heldur einnig grafa undan hagvexti í framtíðinni og þar með tekjuhorfum. Samþykkt hins óvinsæla Icesave-samnings, sem hafði dregist mjög og olli miklum deilum á árinu 2009, mun að okkar mati efla traust fjárfesta á getu stjórnvalda til að setja fram og hrinda í framkvæmd heildstæðri stefnu og tryggja nauðsynlegt erlent fjármagn. Þetta er einnig talið draga úr líkum þess að afnám gjaldeyrishafta fari úr böndunum og ætti að breyttum breytanda að styðja við gengi krónunnar. Endurfjármögnun bankanna lauk í desember 2009 og nam 13% af vergri landsframleiðslu, en það var aðeins helmingur af þeim kostnaði fyrir ríkissjóð sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Engu að síður eru skuldir sem hugsanlega gætu fallið á ríkissjóð áfram verulegar, þar sem óvissa ríkir um gæði eigna í umhverfi yfirskuldsetts einkageira, djúprar kreppu og mikils atvinnuleysis. Í ljósi þess hve skuldir einkageirans eru í miklum mæli í erlendum gjaldmiðlum mundi frekari gengislækkun krónunnar auka á þessa áhættu.

„Í stöðugum horfum vegast á erfiðleikar vegna hins háa skuldahlutfalls hins opinbera og viðkvæmra ytri skilyrða annars vegar og sannfæring okkar um að íslenska þjóðarbúið og stofnanir þess búi yfir þeim sveigjanleika sem þarf til að glíma við þessa erfiðleika hins vegar,“ sagði Moritz Kraemer.

Öll skýr teikn um að hin varfærna efnahagsstefna íslenskra stjórnvalda kunni að veikjast (t.d. ef ríkisútgjöld taka að aukast verulega eða að efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem studd er af Norðurlöndunum færi út um þúfur) gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs að nýju, og lækkað einkunnina niður fyrir fjárfestingarflokk. Hins vegar, með árangursríku áframhaldi á þeirri viðeigandi stefnu stjórnvalda sem framfylgt hefur verið til þessa, sérstaklega ef gjaldeyrishöftum verður aflétt á farsælan hátt og með framkvæmd áætlunar um að draga úr skuldum hins opinbera næstu misserin, mun lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fara hækkandi.

Meðfylgjandi er mat Standard & Poor's:
2009_12 Iceland RU Outlook Stable.pdf

Meðfylgjandi er einnig frétt Standard & Poor's (pdf-skjal):
SOP311209.pdf


Til baka