logo-for-printing

29. desember 2010

Efnahagsyfirlit bankakerfisins 2008-2010

Seðlabankinn hefur nú birt efnahagsyfirlit fyrir íslenska bankakerfið yfir tímabilið frá október 2008 til nóvember 2010. Stofnefnahagsreikningar nýju bankanna þriggja, Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf., lágu fyrir í lok ársins 2009 og hófst þá aftur reglubundin söfnun og úrvinnsla gagna frá nýju bönkunum. Mikil vinna hefur verið lögð í það undanfarna mánuði að hálfu nýju bankanna og Seðlabankans að vinna upp eldri gögn. Gögnin sem nú eru birt eru þó bráðabirgðagögn og miðast við þær upplýsingar frá bönkum og sparisjóðum sem nú eru tiltækar. Þar sem þó nokkur óvissa ríkir enn um mat á eignum í kjölfar bankahrunsins kunna gögnin að breytast eftir því sem áreiðanlegra verðmat verður til.

Útlán nýju bankanna þriggja eru í þessum tölum metin á kaupvirði, þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af Kaupþing banka hf., Glitni hf. og Landsbanka Íslands hf. Kaupvirðið er það virði sem vænt er að muni innheimtast af útlánum. Virði útlánasafnsins endurspeglar því ekki skuldastöðu viðskiptavina. Lánasöfn bankanna eru endurmetin ársfjórðungslega, sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar milli ársfjórðunga á útlánasafni þessara aðila geta því ýmist stafað af endurmati á virði lána eða af eðlilegum lánahreyfingum, þ.e.a.s. veitingu nýrra lána, endurgreiðslu eða breytinga sem ekki tengjast beint hruni bankanna eða eftirmálum þess.

Vegna þess hve verðmat á útlánasafni nýju bankanna skiptir miklu í eignasafni þeirra er nú unnið að því að samræma betur upplýsingagjöf bankanna til Seðlabanka Íslands um virðisbreytingar útlána og niðurfærslur. Eigi að síður er það mat Seðlabankans að gögnin sem nú eru birt gefi ágæta heildarmynd af eigna- og skuldastöðu bankakerfisins þó fara verði varlega í að draga of miklar ályktanir af ýmsum undirliðum gagna um útlán þar sem unnið er að því að samræma framsetningu þeirra. Seðlabankinn vinnur einnig að því að safna gögnum um útlán bankanna á nafnvirði frá október 2008 til dagsins í dag, þannig að þau sýni skuldastöðu viðskiptavina. Vonast er til þess að unnt verði að birta þau gögn innan skamms.

Efnahagsyfirlitin má nálgast í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu Seðlabankans www.sedlabanki.is Gögnin taka einungis til starfandi innlánsstofnana á hverjum tíma ásamt Seðlabanka.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Helgadóttir forstöðumaður á upplýsingasviði Seðlabankans í síma 569 9600.

Sjá ennfremur upplýsingar á síðunni Bankakerfi í Hagtölukafla á vef Seðlabanka Íslands.

Nr. 37/2010
29. desember 2010

Til baka