logo-for-printing

30. desember 2010

Samningum um skuldir sparisjóða er lokið

Seðlabanki Íslands hefur lokið samningum um skuldir fimm sparisjóða sem ekki uppfylltu skilyrði um lágmark eigin fjár í kjölfar bankahrunsins. Þeir sparisjóðir sem um ræðir eru: Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis. Auk þess hafa Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Höfðhverfinga greitt skuldir sínar við Seðlabankann.

Í lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., oft nefnd neyðarlög, er að finna heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að leggja sparisjóðum til stofnfé sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé þeirra. Í upphafi byggði endurskipulagning skulda sparisjóða á grunni laganna en þegar á leið reyndist staða sparisjóðanna verri en áður var talið og kom í ljós að framlag samkvæmt neyðarlögunum myndi ekki duga til að endurreisa þá fjárhagslega. Sparisjóðirnir þurftu því á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning þeirra væri möguleg.

Seðlabanki Íslands varð helsti kröfuhafi sparisjóðanna við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009. Þá fékk Seðlabankinn kröfurnar sem endurgjald þegar honum var gert að taka yfir innlán sparisjóða hjá Sparisjóðabankanum við fall hans. Í samráði við fjármálaráðuneytið var sparisjóðum boðið að semja um uppgjör á skuldum sínum við Seðlabankann að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í kjölfarið hófu sparisjóðirnir að vinna að tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu og voru þær kynntar Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Í kjölfarið samþykkti Fjármálaeftirlitið að sparisjóðirnir gengju til endanlegra samningaviðræðna við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu, enda væri kröfum eftirlitsins fullnægt. Þá samþykkti ESA endurskipulagningaráform ríkisins og Seðlabankans fyrir fimm sparisjóði í júní 2010.

Seðlabankinn hefur leitast við að tryggja virði þeirra krafna sem hann fékk í hendur sem endurgjald innlána. Engu að síður verða endurheimtur krafna á sparisjóðina mun lægri en fjárhæð yfirtekinna innlána. Nema niðurfellingar krafna alls 4.564 m.kr., en til fullnustu krafna fengust hins vegar 3.982 m.kr. Þar af eru 1.735 m.kr. í stofnfjárbréfum, 450 m.kr. í víkjandi lánum, 1.184 m.kr í samningsbundnum lánum og 613 m.kr. í reiðufé. Sparisjóðirnir sem áður uppfylltu ekki skilyrði um lágmark eigin fjár hafa dregið til baka umsókn um stofnfjárframlag frá íslenska ríkinu á grundvelli laga nr. 125/2008. Við endurskipulagninguna eignaðist Seðlabankinn stóran hluta stofnfjár í sparisjóðunum en stofnfjárhlutirnir hafa verið framseldir til Bankasýslu ríkisins sem fer með eignarhaldið fyrir hönd ríkisins.

Sjálfstætt reknir sparisjóðir voru 20 talsins fyrir fall bankanna haustið 2008 en nú er fjöldi þeirra 10. Þeir starfrækja 41 afgreiðslustað víðs vegar um landið sem er um þriðjungur af heildinni.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Nr. 38/2010
30. desember 2010

Til baka