logo-for-printing

16. mars 2011

Yfirlýsing peningastefnunefndar 16. mars 2011

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana verða áfram 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga 4,25% og daglánavextir 5,25%.

Verðbólga mælist nú 1,9% en útlit er fyrir að hún verði heldur meiri á næstunni en áður hafði verið spáð, þrátt fyrir vísbendingar um veikari efnahagsumsvif. Þetta skýrist í meginatriðum af mikilli hækkun hrávöru- og olíuverðs á alþjóðamörkuðum. Horft til lengri tíma ætti þessi framvinda ekki að hafa neikvæð áhrif á verðbólguhorfur meðan langtíma verðbólguvæntingar og launaþróun verða ekki fyrir áhrifum. Skammtíma verðbólguvæntingar hafa hins vegar risið að undanförnu. Eigi að síður er sem fyrr gert ráð fyrir að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiðinu á næstu mánuðum áður en hún tekur að nálgast það á ný.

Þótt grunnefnahagsþættir og gjaldeyrishöft styðji áfram við gengi krónunnar hefur viðskiptavegið gengi hennar lækkað um u.þ.b. 1% frá fundi peningastefnunefndar í febrúar og um 5½% frá því að gengið var sterkast í nóvember sl. Enn er of snemmt að fullyrða að hve miklu leyti megi rekja lækkunina til tímabundinna þátta, eða hvort minni áhættuleiðréttur skammtímavaxtamunur við helstu viðskiptalönd hafi einnig haft áhrif.

Nýlega birtir þjóðhagsreikningar benda til þess að heldur meiri slaki hafi verið í þjóðarbúskapnum en gert hafði verið ráð fyrir. Þótt innlend eftirspurn á síðasta ári hafi verið í samræmi við væntingar, var framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar minna en gert hafði verið ráð fyrir vegna meiri vaxtar innflutnings, þrátt fyrir að vöxtur útflutnings hafi verið kröftugri. Áætlanir Hagstofu Íslands benda til þess að landsframleiðslan hafi dregist meira saman á síðasta ári en Seðlabankinn spáði í febrúar. Eins og ávallt, er hins vegar ástæða til að túlka fyrstu áætlanir þjóðhagsreikninga af varfærni. Að þessu sinni bendir mikill innflutningur fjárfestingarvöru til þess að innlend eftirspurn gæti hafa verið meiri en fyrstu áætlanir þjóðhagsreikninga sýna.

Nýjustu gögn um framvindu efnahagsmála, verðbólgu og gengisþróun gefa nokkuð misvísandi leiðsögn um þörf fyrir breytt aðhald peningastefnunnar. Óvissa vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn og sú staðreynd að áætlun um losun gjaldeyrishafta hefur enn ekki verið að fullu lokið gefur tilefni til sérstakrar aðgæslu um þessar mundir.

Þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um það í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa einnig óvissu til skemmri tíma. Peningastefnunefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.

Ákvörðunina má sjá hér: Vextir 16. mars 2011 (pdf)

 

Nr. 9/2011
16. mars 2011

Til baka