logo-for-printing

01. júní 2011

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2011

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2011 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 48,3 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 58,4 ma.kr. óhagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 24,5 ma.kr. og 2,2 ma.kr. halli var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 70,5 ma.kr.

Halla á þáttatekjum á fyrsta ársfjórðungi má eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 44,1 ma.kr. og tekjur 5,5 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 31,9 ma.kr. og viðskiptajöfnuður 9,6 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.202 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 14.272 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 10.070 ma.kr. og hækka nettóskuldir um 290 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.515 ma.kr. og skuldir 3.327 ma.kr. og var hrein staða þá neikvæð um 812 ma.kr.

Gerð hefur verið breyting á framsetningu á stöðu þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð með því að telja beina erlendra fjármunaeign með eignum þeirra. Það hefur ekki verið mögulegt fyrr m.a. vegna skorts á nákvæmum upplýsingum og flókins utanumhalds um erlendar fjárfestingar. Vegna þessa teljast eignir þeirra hærri en áður hefur verð sett fram hér. Það hefur þau áhrif að erlend staða þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð telst verri sem nemur beinni fjármunaeign þeirra.

Bein erlend fjárfesting
Flest fyrirtæki í beinni fjárfestingu hafa lokið við uppgjör ársins 2010 og hafa tölur ársins verið endurskoðaðar miðað við nýjustu upplýsingar frá þeim. Hækkun á fjármunaeign innlendra aðila erlendis og erlendra aðila innanlands á 4. ársfjórðungi 2010 má að stórum hluta rekja til endurskipulagningar skulda. Það sem áður tilheyrði lánaskuld í beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis flyst yfir í fjárfestingu erlendra aðila innanlands. Endurskipulagningin hefur ekki áhrif á hreina erlenda stöðu. Einnig var hlutafjáreign innlendra aðila erlendis á árinu 2010 hærri en áður var áætlað og nær sú endurskoðun aftur til fyrsta ársfjórðungs 2010.

 

Sjá fréttina í heild í pdf-skjali:

Greiðslujöfnuður við útlönd Q1 2011.pdf

Til baka