logo-for-printing

15. mars 2012

Fyrirframgreiðslur á erlendum lánum Ríkissjóðs Íslands og Seðlabanka Íslands

Í þessum mánuði endurgreiða Ríkissjóður Íslands og Seðlabanki Íslands 116 ma.kr. af lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Norðurlöndunum.

Um er að ræða fyrirframgreiðslu á 289 milljónum SDR, jafnvirði um 55,6 ma.kr., til AGS og 366 milljónum evra, jafnvirði um 60,5 ma.kr., til Norðurlandanna.

Fjárhæðin sem endurgreidd er nemur rösklega 20% þeirra lána sem tekin voru hjá AGS og Norðurlöndunum í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS.

Aðgerðin í dag miðar að því að greiða niður lán til skemmri tíma og draga þannig úr kostnaði við gjaldeyrisforðahald. Ákvörðun um endurgreiðslu er tekin með hliðsjón af tiltölulega rúmri lausafjárstöðu ríkissjóðs og Seðlabankans í erlendri mynt næstu misseri.

Endurgreiðslan nær til gjalddaga sem falla á árinu 2013 í tilfelli AGS-lána. Greiðslur til Norðurlandanna eru vegna gjalddaga sem falla á árunum 2014, 2015 og að hluta árið 2016.

Lán AGS og Norðurlandanna námu í upphafi um 3,4 milljörðum evra eða sem svarar um 564 ma.kr. miðað við núverandi gengi. Endurgreiðslan hefur ekki áhrif á hreinar skuldir ríkissjóðs en heildarskuldir ríkissjóðs lækka um u.þ.b. 3,4% af VLF. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækkar í heild um 6,6% af VLF við þessar breytingar en nettóskuldastaða er óbreytt.

Meðfylgjandi er endurgreiðsluferill erlendra lána ríkissjóðs og Seðlabankans (mynd væntanleg). Þar sést að fyrirframgreiðslan léttir mjög á endurgreiðsluferli erlendra lána næstu fjögur árin, eða til ársins 2016.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Sjá hér pdf-skjal með fréttinni:

Fyrirframgreiðsla á erlendum lánum Ríkissjóðs Íslands og Seðlabanka Íslands

Nr. 11/2011
15. mars 2012

Til baka