Gjaldeyrisútboð
Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321. Jafnframt kallar Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðin þrjú sem haldin verða 7. nóvember n.k. eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011 og skilmála Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta frá 18. nóvember 2011 með síðari breytingum.
Eins og kom fram í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta þá verður gætt að fjármálastöðugleika í hverju skrefi. Í því ljósi áskilur Seðlabankinn sér rétt til að takmarka heildar viðskiptamagn með hliðsjón af áhrifum útboðanna á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Endanleg útboðsfjárhæð ræðst af þátttöku. Útboðsfyrirkomulag er með þeim hætti að öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á sama verði (e. single price). Uppgjör viðskipta í öllum útboðunum þremur verður tveim dögum eftir að útboði lýkur.
Viðskiptabönkum er boðið að hafa milligöngu um viðskiptin um kaup á íslenskum krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Tilteknir aðalmiðlarar á skuldabréfamarkaði hafa milligöngu um viðskipti í útboðinu gegn greiðslu í ríkisverðbréfum. Yfirlit um alla þessa aðila má finna á heimasíðu Seðlabankans. Fjármálafyrirtæki sem gert hafa samstarfssamning við Seðlabanka Íslands um milligöngu (upplýsingar hér að neðan) munu annast framlagningu umsókna um fyrirhugaða þátttöku fjárfesta í útboðinu samkvæmt fjárfestingarleiðinni. Það útboð er opið fjárfestum sem hafa fengið samþykkta umsókn um þátttöku í fjárfestingarleið.
Tilboðum skal skilað eigi síðar en 7. nóvember 2012. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðanna þriggja er að finna í útboðsskilmálum.
Markmið þessara aðgerða er að selja krónur fyrir gjaldeyri til aðila sem ákveðið hafa að fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða í skuldabréfum ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga með þeim hætti úr endurfjármögnunarþörf auk þess að laða til landsins erlendan gjaldeyri í langtímafjárfestingar og auðvelda þannig losun gjaldeyrishafta.
Útboðinu um kaup á krónum er ætlað að stuðla að því að fjárfestar geti selt krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Lausafjárstaða bankanna er nægilega sterk til þess að standast tilfærslur á þeirri krónufjárhæð sem Seðlabankinn mun bjóðast til að kaupa og með ofangreindum endurkaupum á ríkisbréfum er dregið úr mögulegum hliðaráhrifum viðskiptanna á skuldabréfamarkað.
Samkvæmt útboðsáætlun Seðlabankans er stefnt að næsta útboði 19. desember næstkomandi. Seðlabankinn áskilur sér rétt til að eiga viðskipti á milli útboða þar sem verð hverju sinni tekur mið af útboðsverði síðasta útboðs á undan.
Nánari upplýsingar veitir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri í síma 569-9600.
Nr. 38/2012
10. október 2012
Fylgiskjöl:
Áætlun Seðlabanka Íslands um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011
Skilmálar um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta (með breytingum. Birt fyrst 18.11.2011)
Milligönguaðilar, vörsluaðilar, aðalmiðlarar og bankar
Sjá ennfremur:
Frétt um fjárfestingarleiðina frá 18.11.2011