logo-for-printing

04. mars 2013

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2012

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2012 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 12,6 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 31,7 ma.kr. hagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 27,9 ma.kr. en 6,8 ma.kr. halli á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 31 ma.kr. Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 1,5 ma.kr. samanborið við 51,9 ma.kr. hagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan.

Halli á þáttatekjum er eins og áður að miklu leyti vegna innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 16,3 ma.kr. og tekjur um 5,2 ma.kr. Neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á þáttatekjujöfnuð nema 11,1 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa þeirra er því óhagstæður um 22,6 ma.kr.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.430 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.352 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 8.922 ma.kr. og hækka nettóskuldir um 14,6 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.453 ma.kr. og skuldir 3.495 ma.kr. og var hrein staða því neikvæð um 1.042 ma.kr. Nettóskuldir lækka um 95 ma.kr. á milli ársfjórðunga.

Nr. 7/2013
4. mars 2013

Sjá hér fréttina í heild með töflum: Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2012 (pdf)

Til baka