logo-for-printing

29. apríl 2013

Málstofa: Hvers vegna hækkar verð hraðar en það lækkar?

Á morgun, þriðjudaginn 30. apríl kl. 15:00, verður málstofa haldin í fundarsal Seðlabankans á fyrstu hæð, Sölvhóli. Efni málstofunnar er „Hvers vegna hækkar verð hraðar en það lækkar - leikjafræðileg nálgun“ og er frummælandi Jón Þór Sturluson.

Algengt viðhorf meðal almennings, að verð vöru hafi tilhneigingu til að hækka fljótt í kjölfar kostnaðarhækkunar en lækka seint eftir kostnaðarlækkanir, er stutt af fjölmörgum hagrannsóknum. Nokkrar fræðilegar skýringar á fyrirbærinu hafa verið settar fram en fæstar þeirra eru í samræmi við reynslugögn. Hér er sett fram ný skýring sem byggir á einföldu leikjafræðilegu líkani um verðsamkeppni með vöruaðgreiningu og aðlögunarkostnaði (e. menu-cost). Fyrir meðalstórar kostnaðarbreytingar standa fyrirtækin frammi fyrir tveimur jafnvægisniðurstöðum. Hefðbundin viðmið um val á jafnvægi við aðstæður sem þessar leiða til þeirrar niðurstöðu að verð er líklegra til að hækka eða haldast hátt fremur en að það lækki eða haldist lágt. Í tímatengdu samhengi þýðir þetta að verð hækkar hraðar en það lækkar. Þessi kenning samræmist fyrirliggjandi reynslu að fyrirbærið geti komið upp við mismunandi aðstæður og er ekki einskorðað við fákeppni. Líkanið er einnig gagnlegt sem rekstrarhagfræðileg undirstaða fyrir líkanið um bogna eftirspurnarfallið (e. kinked demand curve).
Til baka