logo-for-printing

12. júní 2013

Yfirlýsing peningastefnunefndar 12. júní 2013

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Hagvöxtur virðist hafa verið heldur minni á fyrsta fjórðungi ársins en spáð var í Peningamálum í maí. Of snemmt er hins vegar að fullyrða að hagvaxtarhorfur fyrir árið í heild hafi versnað sakir þess að hagvaxtartölur eru oftar en ekki endurskoðaðar upp á við frá fyrstu tölum og nýjustu vísbendingar um eftirspurn benda til þess að efnahagsbatinn sé í stórum dráttum í samræmi við spá bankans.

Verðbólguhorfur hafa lítið breyst frá maíspánni. Verðbólga hefur minnkað á síðustu mánuðum og mælist nú 3,3%. Undirliggjandi verðbólga og verðbólguvæntingar hafa einnig hjaðnað en eru þó enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Litlar breytingar hafa orðið á gengi krónunnar frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Stefnan um viðskipti Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði sem nefndin hefur markað virðist hafa stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar og er því til þess fallin að veita verðbólguvæntingum betri kjölfestu og stuðla að hraðari hjöðnun verðbólgu en ella.

Peningastefnan hverju sinni þarf að taka mið af stefnunni í opinberum fjármálum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Nokkur óvissa ríkir um áform í opinberum fjármálum á komandi árum. Brýnt er að jöfnuður náist á ríkissjóði sem fyrst þannig að samspil stefnunnar í peninga- og ríkisfjármálum stuðli með sem minnstum tilkostnaði að ytra jafnvægi þjóðarbúsins, efnahagslegum stöðugleika og verðbólgu í samræmi við markmið.

Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum misserum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.

Nr. 20/2013
12. júní 2013

Vextir Seðlabanka Íslands verða eftir ákvörðunina sem hér segir:
Daglánavextir: 7,00%
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga: 6,00%
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum: 5,75%
Innlánsvextir: 5,00%

Til baka