logo-for-printing

13. janúar 2015

Málstofa um fjármagnsskipan og fjárhagslega stöðu 500 stærstu fyrirtækjanna á Íslandi (Viðbót)

Bygging Seðlabanka Íslands

Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, í dag kl. 15.

Á málstofunni mun Steinn Friðriksson, sérfræðingur á fjármálastöðugleikasviði Seðlabankans fjalla um fjármagnsskipan (e. capital structure) og fjárhagslega stöðu 500 stærstu fyrirtækjanna á Íslandi.

Kynnt verður efni nýlegrar greiningar á stöðu 500 stærstu fyrirtækjanna á Íslandi fyrir tímabilið 1997-2012. Sérstaklega verður litið til fjármagnsskipunar fyrirtækjanna en skuldsetning getur haft veigamikil áhrif á afkomu og fjárhagslega stöðu þeirra. Í greiningunni er notast við algenga mælikvarða á skuldastöðu fyrirtækja til þess að meta fjármagnsskipan þeirra og fjárhagslega stöðu, svo sem eiginfjárhlutfall, skuldir sem hlutfall af EBITDA, veltufjárhlutfall og vaxtaþekju (e. interest coverage, hlutfall rekstrarhagnaðar á móti vaxtakostnaði). Út frá þeim er svo lagt mat á það hvort skuldsetning íslenskra fyrirtækja sé viðunandi með tilliti til fjármálastöðugleika. Skuldamargfaldarar benda til þess að fyrirtækin hafi verið of skuldsett á tímabilinu og að svigrúm til þess að auka við skuldir hafi verið lítið fyrir fjármálaáfallið 2008. Fjármálaáfallið hafði mikil áhrif á skuldastöðu fyrirtækjanna og fjölgaði verulega fyrirtækjum með neikvætt eigið fé. Staða fyrirtækjanna batnaði mikið fyrstu fjögur árin á eftir og var orðin sögulega nokkuð góð árið 2012. Út frá sjónarmiðum um fjármálastöðugleika væri þó ef til vill æskilegra að skuldsetning fyrirtækjanna væri minni. Á þessu tímabili var fjárhagsleg staða fyrirtækjanna mjög breytileg eftir atvinnugreinum.

VIÐBÓT eftir að erindi var flutt:

Pdf-skjal með glærum sem notaðar voru við kynninguna: Steinn Friðriksson: 500 veltumestu fyrirtæki landsins. Fjármagnsskipan og fjárhagsleg staða.pdf

Til baka