Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2014
Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2014 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 26,7 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 43,2 ma.kr. hagstæðan jöfnuð fjórðunginn á undan. Vöruskiptajöfnuður var hagstæður sem nemur 15,4 ma.kr. og þjónustujöfnuður um 11,8 ma.kr. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 3,2 ma.kr. en rekstrarframlög voru óhagstæð sem nam 3,8 ma.kr. Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var hagstæður um 35,6 ma.kr. samanborið við 52,7 ma.kr. fjórðunginn á undan.
Afgangur af þáttatekjum mældist síðast á þriðja ársfjórðungi ársins 2007. Þrátt fyrir afgang nú voru neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð engu að síður mikil. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 14,5 ma.kr. og tekjur um 5,6 ma.kr. Neikvæð áhrif innlánsstofnana í slitameðferð á þáttatekjujöfnuð námu 8,9 ma.kr. Þáttatekjur án áhrifa þeirra voru því hagstæðar um 12,1 ma.kr.
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 5.279 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.113 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 7.835 ma.kr. og hækkuðu nettóskuldir um 215 ma.kr. á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 3.712 ma.kr. og skuldir 3.833 ma.kr. Hrein staða var því neikvæð um 121 ma.kr. og hækkuðu nettóskuldir um 17 ma.kr. á ársfjórðungnum. Í töflu 2 er rakin þróun helstu eigna- og skuldaliða á ársfjórðungnum og eru breytingar sundurgreindar í viðskipti í fjármagnsjöfnuði, gengis- og verðbreytingar og aðrar breytingar. Fjármagnsviðskipti voru töluverð á ársfjórðungnum og lækkuðu erlendar eignir um 403 ma.kr. vegna þeirra en á móti lækkuðu skuldir um 475 ma.kr. Hrein fjármagnsviðskipti leiddu því til um 72 ma.kr. bættrar erlendrar stöðu. Hin miklu fjármagnsviðskipti má að stórum hluta rekja til greiðslu slitastjórnar Landsbankans til forgangskröfuhafa sem nam rúmum 400 ma.kr. en einnig greiddi Seðlabankinn fyrirfram tæpa 50 ma.kr. inn á hluta lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Áhrif gengisbreytinga á erlenda stöðu þjóðarbúsins voru töluverð en sem dæmi lækkaði gengi krónunnar um tæplega 5% gagnvart Bandaríkjadal og um 1% gagnvart sterlingspundi og evru. Í heild hækkaði þó gengi krónu um 0,5% miðað við gengisskráningarvog. Verð erlendra hluta- og skuldabréfa hækkaði að meðaltali um innan við 1%. Samanlögð áhrif gengis- og verðbreytinga leiddu til lakari stöðu sem nam 187 ma.kr. en á ársfjórðungnum hækkuðu erlendar eignir um 95 ma.kr. og erlendar skuldir um 283 ma.kr. vegna þeirra. Aðrar breytingar á eignum og skuldum leiddu til lakari stöðu sem nam 100 ma.kr.
Sjá hér fréttina í heild með talnaefni: Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2014.pdf