logo-for-printing

03. mars 2015

Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í árslok 2014

Bygging Seðlabanka Íslands

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2014 og um erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Til frekari upplýsingar birtir Seðlabankinn samhliða mat á undir-liggjandi erlendri stöðu þjóðarbúsins. Þá er reynt að leggja mat á þá stöðu sem mun birtast þegar innlendar og erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð hafa verið seldar og andvirði þeirra ráðstafað til kröfuhafa. Undirliggjandi erlend staða í árslok 2014 er metin neikvæð um 880 ma.kr. eða 45% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2014. Til samanburðar var undirliggjandi staða í lok þriðja ársfjórðungs metin neikvæð um 929 ma.kr. Undirliggjandi staða hefur því batnað á fjórða ársfjórðungi um 49 ma.kr. eða um 2,5% af vergri landsframleiðslu. Stærsta hreyfingin í ársfjórðungnum var rúmlega 400 ma.kr. útgreiðsla LBI til kröfuhafa en félagið notaði að hluta til innlán í erlendum gjaldmiðlum sem geymd voru í innlendu viðskiptabönkunum. Viðskiptabankarnir seldu erlendar skammtímaeignir á móti úttekt innlánanna sem veldur lækkun á erlendri eignahlið þjóðarbúsins án innlánsstofnana í slitameðferð en á móti dregur úr neikvæðum reiknuðum áhrifum af slitum búanna. Aðrar helstu breytingar eru aukinn nettó gjaldeyrisforði um 36 ma.kr. og gengis- og virðisbreytingar á erlendum hlutabréfum innlendra aðila sem valda hækkun eignamegin um 35 ma.kr. Skuldamegin vegur þyngst hækkun á skuldaskjölum um 28 ma.kr. Um einn þriðji er tilfærsla úr innlánum í skuldabréf en um 2/3 hlutar skýrast af skuldabréfaútgáfum innlendra aðila erlendis og óhagstæðri gengisþróun á útistandandi skuldabréfum.

Við mat á eignum innlánsstofnana í slitameðferð er notað bókfært virði þeirra samkvæmt uppgjörum slitastjórnanna. Við skiptingu á kröfuhöfum í innlenda og erlenda aðila er farið eftir samþykktum kröfum samkvæmt kröfuhafaskrám búanna, sem greindar eru niður á undirliggjandi eigendur. Rétt er að geta þess að veruleg óvissa er um markaðsvirði eigna innlánsstofnana í slitameðferð og um hlutfallslega skiptingu á kröfum í innlendar og erlendar. Þættir svo sem uppgjörsgengi gjaldmiðla, skuldajafnanir og niðurstöður úr ágreiningi um tilteknar kröfur munu skera endanlega úr um stöðu búanna og þar með um áhrif uppgjöranna á erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Seðlabankinn hefur í síðustu birtingum við mat á erlendri stöðu þjóðarbúsins tilgreint sérstaklega áhrif af slitum á nokkrum innlendum fyrirtækjum, öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem unnið er að slitum á. Skuldaskil þessara fyrirtækja eru nú langt komin og munur á bókfærðu virði eigna og skulda er óverulegur. Því telur Seðlabankinn ekki forsendur til að tilgreina þessi fyrirtæki sérstaklega enda áhrif þeirra á hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins ekki lengur marktæk.

Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins
Hrein staða við útlönd var neikvæð um 7.835 ma.kr. eða 398% af vergri landsframleiðslu við lok árs 2014. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð var staðan neikvæð um 121 ma.kr. eða 6% af vergri landsframleiðslu. Talið er að slit innlánsstofnana í slitameðferð hafi neikvæð áhrif á hreinu stöðuna sem nemur 759 ma.kr. eða 39% af vergri landsframleiðslu. Undirliggjandi hrein erlend staða miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnana í slitameðferð og fyrirtækja sem unnið er að slitum á er því metin neikvæð um 880 ma.kr. eða 45% af vergri landsframleiðslu.

Sjá hér fréttina í heild með talnaefni: Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í árslok 2014.pdf

Til baka