logo-for-printing

10. ágúst 2015

Ný rannsóknarritgerð um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013

Working Paper No. 68

Út er komin rannsóknarritgerð nr. 68, „The long history of financial boom-bust cycles in Iceland - Part I: Financial crises“, eftir Bjarna G. Einarsson, Kristófer Gunnlaugsson, Þorvarð Tjörva Ólafsson og Þórarin G. Pétursson. Í ritgerðinni er fjallað um fjármálakreppur á Íslandi á hartnær 150 ára tímabili, þ.m.t. einkenni þeirra, innbyrðis tengsl ólíkra gerða fjármálakreppa, áhrif þeirra á þjóðarbúskapinn, samhengi við alþjóðlegar fjármálakreppur og notagildi ólíkra hagstærða sem leiðandi vísbendingar komandi fjármálakreppa.

Fjármálakreppan á Íslandi árið 2008 var gríðarlega umfangsmikil og hafði mikil efnahagsleg áhrif. Hún var hins vegar ekki fyrsta fjármálakreppan sem skollið hefur á hér á landi. Á síðustu einni og hálfri öld hafa orðið yfir tuttugu fjármálakreppur hér á landi af ólíkum tegundum. Þær hafa gjarnan fylgst að og í ritgerðinni eru því borin kennsl á sex stórar og „fjölþættar“ fjármálakreppur sem hafa skollið á íslensku efnahagslífi á u.þ.b. fimmtán ára fresti. Frekari greining á þessum sex stóru kreppum sýnir svo ekki verður um villst að þegar kemur að fjármálakreppum þá „höfum við séð þetta allt áður“.

Niðurstöðurnar sýna t.d. að efnahagssamdráttur í kjölfar fjármálakreppa er að jafnaði um tvöfalt dýpri og varir hátt í tvöfalt lengur en í kjölfar hefðbundins efnahagssamdráttar. Þær benda einnig til þess að fimm af þessum sex fjármálakreppum eigi sér skýra samsvörun í alþjóðlegum fjármálakreppum sem skollið hafa á á sama tíma og að tvö- til þrefalt meiri hætta sé á fjármálakreppu hér á landi á tímum alvarlegrar alþjóðlegrar fjármálakreppu.

Greiningin byggist á gagnasafni sem höfundar hafa tekið saman úr sögulegum hagtölum og er aðgengilegt hér að neðan. Í væntanlegri framhaldsritgerð leitast höfundar við að greina svokallaðar fjármálasveiflur (e. financial cycles) í íslenskum þjóðarbúskap með því að nota sömu gögn.

 

Ný rannsóknarritgerð um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013

Rannsóknarritgerðir Seðlabankans má nálgast hér: Rannsóknarritgerð.

 

Tengt efni:

Gagnasafn um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013.

Efni frá málstofu um fjármálakreppur á Íslandi 1875-2013.

Efni frá erindi um sögu peningamála á Íslandi.


Til baka