logo-for-printing

02. nóvember 2015

Samþykkt bankaráðs Seðlabanka Íslands í framhaldi af bréfi umboðsmanns Alþingis

Bankaráð Seðlabanka Íslands 2015

Bankaráð Seðlabanka Íslands hefur tekið til umfjöllunar bréf umboðsmanns Alþingis frá 2. október síðastliðnum og óskað eftir umsögn yfirstjórnar bankans við bréfinu. Jafnframt telur bankaráð að bréfið gefi ráðinu tilefni til að láta gera óháða úttekt, með hliðsjón af gildandi lögum og reglum á hverjum tíma, á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðna og gjaldeyrisrannsókna.

Meðfylgjandi er úr ályktun bankaráðs sem það samþykkti á fundi sínum 29. október síðastliðinn.

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað bankaráði Seðlabanka Íslands bréf, dags. 2. október síðastliðinn, m.a. á grundvelli ábendinga sem honum hafa borist á umliðnum árum. Fjármála- og efnahagsráðherra, bankastjóri Seðlabanka Íslands og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fengu einnig sama bréf.

Í bréfinu gerir umboðsmaður grein fyrir athugun sinni á stjórnsýslu Seðlabankans, annars vegar varðandi gjaldeyrishöft og þau auknu verkefni á sviði gjaldeyriseftirlits og gjaldeyrisrannsókna, sem bankinn fékk í hendur í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og frá Fjármálaeftirlitinu árið 2010, og hins vegar félögum í eigu bankans um meðferð og sölu eigna, sem Seðlabankinn og að hluta ríkissjóður fengu til fullnustu lánum og kröfum vegna fyrirgreiðslu við fjármálafyrirtæki í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Í bréfinu gerir umboðsmaður athugasemdir við ýmislegt í framkvæmd Seðlabankans á þessum verkefnum, auk þess sem umboðsmaður telur að lagaheimildir til tiltekinna verkefna hafi e.t.v. ekki verið nægilega skýrar. Þá kemur umboðsmaður með ýmsar ábendingar varðandi það sem hann telur að betur megi fara í stjórnsýslu bankans.

Í lok bréfs umboðsmanns kemur fram sú ósk að honum verði eigi síðar en 15. apríl 2016 gerð grein fyrir því hvort bréfið hafi orðið tilefni til viðbragða af hálfu viðtakendanna.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 36/2001 með síðari breytingum um Seðlabanka Íslands hefur bankaráð eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Vegna bréfs umboðsmanns hefur bankaráð því ákveðið að óska eftir umsögn yfirstjórnar Seðlabankans um bréf umboðsmanns. Þess er óskað að sú umsögn liggi fyrir eigi síðar en 10. desember næstkomandi.

Jafnframt telur bankaráð að bréfið gefi ráðinu tilefni til að láta gera óháða úttekt, með hliðsjón af gildandi lögum og reglum á hverjum tíma, á stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits, undanþágubeiðna og gjaldeyrisrannsókna. Í tengslum við það verði einnig horft til framangreindrar umsagnar yfirstjórnar Seðlabankans auk þegar fyrirliggjandi úttekta innri endurskoðanda bankans sem og ábendinga sem bankaráði hafa borist eftir að þær innri úttektir voru gerðar. Loks verði í úttektinni skoðað hvort ástæða sé til að skýra æskilegt verksvið og lagaheimildir bankans á þessum sviðum og settar fram tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefur.

Í framhaldi af samþykkt þessarar ályktunar mun formaður bankaráðs eiga í viðræðum við aðila til að taka að sér úttekt af þessu tagi.

(Athugið að meðfylgjandi mynd af bankaráði Seðlabanka Íslands var tekin á fundi ráðsins fyrr á árinu áður en núverandi formaður, Þórunn Guðmundsdóttir, var kjörin sl. vor. Á myndinni eru einnig seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra).
Til baka