logo-for-printing

04. júní 2016

Nýtt stjórntæki til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsinnstreymis

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur birt reglur um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris í samræmi við nýtt bráðabirgðaákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Megintilgangur lagaákvæðisins er að veita Seðlabanka Íslands nýtt stjórntæki gagngert til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til landsins, svokallað fjárstreymistæki. Því er ætlað að draga úr áhættu sem getur fylgt óhóflegu fjármagnsinnflæði innan núgildandi regluverks um gjaldeyrismál, styðja við aðra þætti innlendrar hagstjórnar og stuðla með því að þjóðhagslegum og fjármálalegum stöðugleika.

Fjárstreymistæki Seðlabankans byggist á bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris samkvæmt reglum sem bankinn setur á grundvelli laga um gjaldeyrismál. Útfærsla fjárstreymistækisins tekur mið af því að stjórntækið dragi úr áhættu sem verulegt fjármagnsinnstreymi getur skapað með því að hafa bein áhrif á hvata til vaxtamunarviðskipta. Þannig er tækinu m.a. ætlað að stuðla að skilvirkri miðlun peningastefnunnar. Útfærslan tekur ennfremur mið af því að stjórntækið sé sveigjanlegt, markvisst og skilvirkt í framkvæmd svo hægt sé að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum.

Í reglunum er kveðið á um framkvæmd bindingar reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, þar á meðal um bindingargrunn, bindingartíma, bindingarhlutfall, uppgjörsmynt bindingar og vexti á fjárstreymisreikningum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands. Bindingargrunnurinn er nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í tengslum við tiltekna fjármuni, einkum nýfjárfestingu í rafrænt skráðum skuldabréfum og víxlum, og innstæður. Auk þess getur nýtt innstreymi í tengslum við lánveitingar, sem nýttar eru til fjárfestingar í fyrrgreindum fjármunum, myndað bindingargrunn. Nánar er kveðið á um bindingargrunninn í reglunum. Lögin gera ráð fyrir að bindingartími geti orðið allt að fimm ár og bindingarhlutfall hæst orðið 75%, en samkvæmt reglunum er bindingartíminn eitt ár og hlutfallið 40%. Í reglunum er einnig kveðið á um að vextir á fjárstreymisreikningum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands vegna nýs innstreymis séu 0% og uppgjörsmynt bindingar sé íslenskar krónur.

Reglurnar má finna hér: Reglur nr. 490 2016

Frétt nr. 13/2016
4. júní 2016

Til baka