Halli á viðskiptajöfnuði 30,5 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi 2024 - hrein staða við útlönd jákvæð um 38,9% af VLF
Á öðrum ársfjórðungi 2024 var 30,5 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 3,3 ma.kr. betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 36,6 ma.kr. lakari en á sama fjórðungi árið 2023. Halli á vöruskiptajöfnuði var 89,5 ma.kr. en 67,2 ma.kr. afgangur á þjónustujöfnuði. Frumþáttatekjur skiluðu 5,4 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 13,7 ma.kr. halla.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2024 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.705 ma.kr. eða 38,9% af vergri landsframleiðslu (VLF) og versnaði um 47 ma.kr. eða 1,1% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 6.173 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.468 ma.kr. Á fjórðungnum versnaði staðan um 40 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta. Erlendar eignir lækkuðu um 132 ma.kr. og skuldir um 92 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar hækkuðu virði eigna á ársfjórðungnum um 19 ma.kr. og lækkuðu virði skulda um 6 ma.kr. og leiddu því til 24 ma.kr. betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar hækkaði um tæp 0,3% miðað við gengisskráningarvog. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 2,2% milli fjórðunga en verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði lækkaði um 3,3%.
Sjá hér fréttina í heild: Halli á viðskiptajöfnuði 30,5 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi 2024 – hrein staða við útlönd jákvæð um 38,9% af VLF.