Seðlabanki Íslands setur af stað hagkvæmnismat á innleiðingu á TARGET- millibankagreiðslukerfunum
Seðlabanki Íslands hefur hafið vinnu við greiningu og mat á mögulegri innleiðingu á greiðslukerfum Eurosystem, svokölluðum TARGET Services, nánar tiltekið millibankagreiðslukerfunum TIPS og T2. TIPS er rauntímagreiðslukerfi (e. instant payment system), en T2 er millibankagreiðslukerfi fyrir stórgreiðslur (e. real-time gross settlement) og miðlæga lausafjárstýringu (e. central liquidity management). Seðlabankinn muni fyrst leggja áherslu á TIPS og svo T2 í framhaldinu.
Markmið Seðlabanka Íslands með fyrirhugaðri vinnu byggist á lögbundnum hlutverkum bankans, sem er m.a að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Seðlabankinn á og rekur millibankagreiðslukerfi (MBK) sem er forsenda þess að hægt er að framkvæma stór- og smágreiðslur í seðlabankafé, verðbréfauppgjör og kortauppgjör og þar með grundvöllur fyrir skilvirkri greiðslumiðlun í íslenskum krónum. MBK skiptist í tvo hluta, stórgreiðslukerfi (RTGS) og rauntímagreiðslukerfi (EXP).
Ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hefja vinnu við greiningu og mat á TARGET- þjónustunum byggist á því að unnt verði að stuðla að viðnámsþrótti, öryggi og aukinni hagkvæmni fyrir innlenda greiðsluinnviði til frambúðar.
Innleiðing Seðlabankans á TARGET- þjónustunum myndi stuðla að því að innviðir fyrir uppgjör íslenskra rauntímagreiðslna yrðu í samræmi við þróun í Evrópu. Notkun sameiginlegra staðla getur stuðlað að auknu úrvali kerfislausna fyrir rauntímagreiðslur hér á landi, skilað sér í auknu virði til neytenda og styrkt viðnámsþrótt. Innleiðing á TARGET- þjónustunum myndi ekki hafa áhrif á það hlutverk sem Seðlabanki Íslands hefur gagnvart þátttakendum í núverandi greiðslukerfum.
Endanleg ákvörðun um innleiðingu á TARGET- þjónustunum verður tekin eftir að ítarleg greining hefur farið fram á kerfunum með hliðsjón af tækni-, rekstrar-, laga- og öryggiskröfum Seðlabankans. Kostnaður, viðbúnaður og geta til þess að styðja við hugsanlegar sérþarfir íslenska fjármálakerfisins verða mikilvægir þættir í ákvörðunartökunni.
Seðlabanki Íslands mun eiga samtal við markaðsaðila í greiðslumiðlun hér á landi á meðan á vinnunni stendur og bjóða hagsmunaaðilum að taka þátt í vinnuhópum til að skoða sérstök mál sem kunna að koma upp.
Frétt nr. 13/2024
9. september 2024