logo-for-printing

26. október 2021

Fjártækni og seðlabankar

Hraðfara tækniþróun í fjármálaþjónustu undanfarið hefur getið af sér hugtakið fjártækni (e. FinTech).[1] Engin algild skilgreining er á hugtakinu en það er notað um hvers kyns tækninýsköpun í fjármálaþjónustu sem getur leitt til nýrra viðskiptalíkana, hugbúnaðar, ferla eða vara í greiðsluþjónustu og haft áhrif á fjármálamarkaði og stofnanir og á það hvernig fjármálaþjónusta er veitt. Myntslátta og útgáfa seðla eru dæmi um fyrri tíma fjártækniafurðir en nær í tíma eru útgáfa greiðslukorta og innleiðing hraðbanka. Á tíunda áratug síðustu aldar olli netið byltingu í fjártækni, fyrst með netbönkum og síðar með flóru smáforrita sem nota má til að greiða með. Seðlabankar fylgjast grannt þeirri hröðu þróun sem á sér stað á þessu sviði og leitast við að glöggva sig á tækifærum sem í fjártækni geta falist en einnig áhættu sem henni kunna að fylgja.

 

Nýsköpunarmiðstöðvar BIS

Alþjóðagreiðslubankinn í Basel í Sviss (BIS) setti árið 2019 á laggirnar sérstaka nýsköpunarmiðstöð (BIS Innovation Hub, BISIH) um áhrif tækniþróunar á störf og ábyrgðarsvið seðlabanka. Síðan hefur BIS í samstarfi við ýmsa seðlabanka opnað fleiri slíkar nýsköpunarmiðstöðvar víðs vegar um heiminn, fyrst í Hong Kong og Singapúr. Í samstarfi BIS við Englandsbanka var fjórða nýsköpunarmiðstöðin opnuð í Lundúnum í júní 2021 og í sama mánuði í samstarfi við Seðlabanka Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar var ein slík vígð í Stokkhólmi. BIS áformar stofnun fleiri nýsköpunarmiðstöðva, m.a. í samvinnu við seðlabanka Kanada í Toronto, sameiginlegrar miðstöðvar fyrir evrukerfið í Frankfurt og París ásamt samstarfi við seðlabanka Bandaríkjanna í New York.
Markmiðið með nýsköpunarmiðstöðvunum er að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um fjártækni og byggja upp þekkingu á því sviði, einkum að því marki sem fjártækni snertir hlutverk seðlabanka. Um tilefnið hefur BIS sagt að tæknidrifin nýsköpun í fjármálaþjónustu hreyfist nú á ógnarhraða og muni hafa gríðarleg áhrif á alþjóðleg fjármálakerfi.

 

BIS setur sér starfsáætlun til eins árs í senn. Þar er að finna helstu áherslur nýsköpunarmiðstöðvanna sem lúta m.a. að útgáfu seðlabanka á rafrænu reiðufé, netöryggi og grænum fjármálum á starfsárinu 2021-2022.[2]  Hér á eftir verða stuttlega reifuð nokkur verkefni sem nýsköpunarmiðstöðvarnar vinna að um þessar mundir. Til hagræðis fylgja hlekkir á verkefnin fyrir áhugasama.

 

Verkefni í vinnslu

Segja má að verkefnin mótist nokkuð af því sem ýmsir seðlabankar heimsins hafa til skoðunar um þessar mundir, þ.e. mögulega útgáfu rafræns reiðufjár (e. Central Bank Digital Currency, CBDC) og hvernig nútíma fjártækni kunni að nýtast í þeim efnum. Einnig hvernig fjártækni geti nýst til að gera framkvæmd greiðslna og uppgjör yfir landamæri skilvirkari, öruggari og hagkvæmari sem löngum hafa þótt kostnaðar- og tafsamar.

Hong Kong

Genesis. Um er að ræða fyrsta verkefni BISIH af þessum toga þar sem bálkakeðjur, dreifð færsluskrártækni (e. Distributed Ledger Technology, DLT), snjallsamningar og stafrænar eignir koma við sögu. Framtíðarsýnin er að neytendur geti með smáforriti sem þeir hlaða niður í síma sína fjárfest í grænum, öruggum ríkisskuldabréfum og selt þau á gagnsæjum markaði. Á líftíma skuldabréfanna geti neytendur ekki einungis fylgst með áföllnum vöxtum heldur einnig í rauntíma hve mikil hrein orka skapast af fjárfestingunni og því samfara hversu mikla lækkun kolefnisspors hún felur í sér.[3]  Í þessu skyni er nú unnið að frumgerðum (e. prototypes) til tákngreiningar/auðkenningar (e. tokenization) í viðskiptum með græn skuldabréf og þar sem í rauntíma mætti sjá áhrif viðskiptanna á umhverfið. Áformað er að frumgerðum Genesis verði lokið fyrir árslok 2021.

mCBDC Bridge. Stofnanir ýmissa ríkja koma að þessu verkefni sem hefur það að markmiði að nota stafræna gjaldmiðla og fyrrgreinda dreifða færsluskrártækni (DLT) til að gera greiðslur (og uppgjör) yfir landamæri ódýrari og öruggari. Jafnframt þannig að þær megi framkvæma í rauntíma en greiðslur sem þessar hafa löngum þótt vera bæði kostnaðar- og tafsamar. Í þessu skyni hefur verið þróaður vettvangur (e. DLT platform) þar sem seðlabankar gætu gefið út eigið rafrænt reiðufé (e. Central Bank Digital Currency, CBDC) og dreift því til þátttakenda í eigin lögsögum. Þannig geta þátttakendurnir framkvæmt milliliðalausar greiðslur (e. peer-to-peer) og innleyst hið rafræna reiðufé hjá þeim seðlabanka sem gaf það út. Frumgerð (e. prototype) vettvangsins hefur verið prófuð og lofar góðu en með henni hefur tekist að framkvæma alþjóðlegar færslur og gjaldmiðilsumreikninga á einungis örfáum sekúndum. Gert er ráð fyrir því að lækka megi kostnað um allt að helming frá því sem nú er. Verkefnið er unnið í þremur áföngum og verður framhaldið til ársins 2022.

Aurum er verkefni þar sem kostir og áskoranir tveggja þrepa hönnunar (e. two tier architectures) til dreifingar rafræns reiðufjár (CBCD) í gegnum viðskiptabanka og aðra greiðsluþjónustuveitendur eru kannaðir. Markmiðið er að gefa almenningi í Hong Kong aðgang að auðkennanlegum stafrænum gjaldmiðli (e. tokenized digital currency) til notkunar í smágreiðslumiðlun.

Digitising Trade Finance kannar möguleikann á stafrænni auðkenningu fyrirtækja, alþjóðlegri fyrirtækjaskrá, til að auðvelda þeim aðgang að fjármagni utan lögsögu þeirra. Verið er nú að skoða hver verða næstu skref þessa verkefnis.

 

Singapúr

Nýsköpunarmiðstöðin gegnir samræmingarhlutverki vegna svokallaðs G20 TechSprint „hackathon“-verkefnis sem nýsköpunarmiðstöð BIS stendur að ásamt seðlabönkum þeirra ríkja sem hverju sinni gegna formennsku í G20, nú síðast (í maí 2021) með ítalska seðlabankanum þar sem áhersla var lögð á að kanna nýja tækni sem gæti nýst til að takast á við áskoranir vegna grænna og sjálfbærra fjármála.

Nexus er verkefni sem miðar að því að hanna vettvang (e. platform) þar sem innlend greiðslukerfi ríkja geta tengst saman og framkvæmt rauntímagreiðslur yfir landamæri á áður óþekktum hraða (e. instant cross-border payments). Svipar þessu verkefni til mCBDC Bridge en hér er ekki um að ræða CBDC. Markmiðið er að þetta geti gerst á innan við einni mínútu. Stefnt er að birtingu stöðuskýrslu vegna verkefnisins í mars 2022 og lokaskýrslu á seinni hluta ársins 2022. Eftir það er gert ráð fyrir því að verkefnið verði afhent aðilum í greiðslumiðlun (e. the payments industry) til frekari úrvinnslu.

Dunbar er samstarfsverkefni BISIH og nokkurra seðlabanka sem miðar að því að þróa sameiginlega vettvanga (e. shared platforms) sem hægt yrði að nota til að framkvæma og gera upp greiðslur yfir landamæri í rafrænu reiðufé sem seðlabankar gefa út (e. multiple CBDCs). Með þessu móti gætu fjármálafyrirtæki átt bein samskipti í þeim stafrænu gjaldmiðlum sem um ræðir og með því útrýmt þörf fyrir milliliði ásamt því sem dregið væri úr tíma og kostnaði við framkvæmd greiðslna yfir landamæri.

Ellipse snýr að því að skapa samþættan vettvang vegna gagnaskila eftirlitsskyldra aðila á markaði sem varða hlítni þeirra við lög og reglur (e. regulatory reporting) og fyrir greiningar eftirlitsaðila sem geri þeim síðarnefndu kleift, með skjótari hætti og áður óþekktum fyrirsjáanleika að leggja mat á eindar- og þjóðhagsvarúðaráhættur með notkun tölvugreindar (e. machine learning). Gert er ráð fyrir því að frumgerð (e. prototype) hins samþætta vettvangs verði lokið fyrir mars 2022.

 

Sviss

Helvetia er samstarfsverkefni svissneska seðlabankans (SNB), BIS og rekstraraðila svissneska fjármálainnviðarins SIX. Verkefnið, sem unnið er í tveimur áföngum, gengur út á að kanna hvernig seðlabankar geta stutt við uppgjör verðbréfa sem gefin eru út á dreifðri færsluskrá (e. DLT platform). Áætlað er að verkefninu verði lokið á fyrri hluta árs 2022.

Jura er samstarfsverkefni sem seðlabankar Frakklands og Sviss ásamt BIS og nokkrum aðilum úr einkageiranum standa að. Það gengur út á að rannsaka áskoranir og hugsanlegan ávinning af því að nota rafrænt reiðufé (e. wholesale CBDC, wCBDC) við uppgjör stafrænna fjármálagerninga yfir landamæri. Áformað er að verkefninu verði lokið fyrir árslok 2021.

Rio er verkefni þar sem kannað er hvernig seðlabankar geti notað skýjatækni til að streyma og vakta í rauntíma hraða, rafræna markaði (e. fast-paced electronic markets, FPMs) og með því sýna (í rauntíma) þörf fyrir aðgerðir sem snúa að lausafjár- og markaðsáhættu. Frumgerð (e. prototype), sem er nánast tilbúin, sýnir að þetta er tæknilega framkvæmanlegt. Vinnuhópur hefur verið settur á laggirnar til að hanna mælaborð (e. dashboard) í þessu skyni en aðild að honum á m.a. norski seðlabankinn.

Secure Coding Competition er óformlegur viðburður sem svissneska nýsköpunarmiðstöðin hélt síðla árs 2020 í samstarfi við netöryggismiðstöð BIS (e. the BIS Cyber Resilience Coordination Centre) í því skyni að þjálfa starfsmenn seðlabanka í dulkóðunum. Um 60 hugbúnaðarsérfræðingar frá yfir 20 seðlabönkum tóku þátt.

Rétt þykir að nefna að verkefnin mCBDC Bridge (Hong Kong), Dunbar (Singapore) og Jura (Sviss) styðja öll við áætlun G20 ríkjanna um að gera greiðslur yfir landamæri skilvirkari, öruggari og hagkvæmari (G20 roadmap for enhancing cross-border payments).

 

Nýsköpunarmiðstöðvar BIS – nýlegt og framundan

 

Lundúnir

Nýsköpunarmiðstöðin sem var vígð í júní sl. er til húsa í aðalbyggingu Englandsbanka (e. Bank of England, BoE). Undirbúningur starfseminnar er í gangi um þessar mundir, þ.m.t. ákvörðun verkefna.

 

Stokkhólmur

Nýsköpunarmiðstöðin, sem seðlabankar Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar standa að var vígð 16. júní sl. og tók Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, þátt í athöfninni.[4]  Undirbúningur að stofnun hennar hafði staðið yfir undanfarin misseri með virkri þátttöku Seðlabanka Íslands. Um þessar mundir er unnið að ráðningu starfsmanna en í kjölfarið er gert ráð fyrir að fyrstu verkefni nýsköpunarmiðstöðvarinnar verði ákveðin.

Ákvörðun um stefnumótandi samstarf (e. Strategic Partnership) milli BIS og Seðlabanka Bandaríkjanna í New York (e. Federal Reserve Bank of New York, FRBNY) var undirritað í janúar 2021. Í undirbúningi er að opna nýsköpunarmiðstöð þar (e. New York Innovation Center) síðar á þessu ári en hún verður þó ekki eiginlegur hluti af nýsköpunarmiðstöð BIS (BISIH) eða BIS.

Eins og komið hefur fram þá áformar BISIH að opna nýsköpunarmiðstöðvar í Frankfurt og París og í Toronto í samstarfi við kanadíska seðlabankann. Einnig má nefna að í janúar sl. kom BIS enn fremur á fót víðtæku samskiptaneti seðlabanka um heim allan um málefni fjártækni (e. BIS Innovation Network, BISIN). Því er m.a. ætlað að styðja við starf nýsköpunarmiðstöðvanna, auðvelda upplýsingaskipti vegna tæknilegra verkefna seðlabanka og styðja við umræðu um nýskapandi lausnir. Seðlabanki Íslands á fulltrúa í samskiptanetinu.

Ljóst er að til framtíðar litið verður áhugavert að fylgjast með störfum nýsköpunarmiðstöðva BIS og framvindu verkefna á þeirra vegum. Á það ekki hvað síst við í tilviki nýsköpunarmiðstöðvarinnar í Stokkhólmi sem BIS, líkt og áður segir, stofnaði nýlega í samstarfi við Seðlabanka Íslands og fleiri norræna seðlabanka.

Höfundur: Ómar Þór Eyjólfsson, sérfræðingur hjá yfirsýn fjármálainnviða á fjármálastöðugleikasviði

[1] Í síðustu útgáfu rits Seðlabankans, Fjármálastöðugleika (2021-2), er í IV. kafla fjallað um fjártækni. Þar er einnig sagt frá því starfi sem BIS hefur staðið að í samstarfi við ýmsa seðlabanka heimsins.

[2] Sjá starfsáætlun BIS fyrir 2021-2022 hér.

[3] Í daglegu tali er gjarnan talað um dreifðar færsluskrár og bálkakeðjur sem einn og sama hlutinn en svo er þó ekki. Bálkakeðjur eru tæknilausn sem nota má í þeim tilgangi að millifæra milli aðila t.d. fjármagn, eignir eða upplýsingar án milliliðar eða aðkomu þriðja aðila, t.d. með snjallsamningi, en dreifð færsluskrártækni sú tækni sem bálkakeðjur byggjast á.

[4] Sjá fréttir á vefsíðu Seðlabankans af þessu tilefni, hér (frétt frá 16. júní 2021) og hér (frétt frá 30. júní 2020).

Til baka