logo-for-printing

18. nóvember 2021

Peningamál í hnotskurn

Alþjóðlegur hagvöxtur reyndist meiri á fyrri árshelmingi en gert var ráð fyrir í ágústspá Peningamála en útlit er fyrir að hann verði lakari á seinni hluta ársins. Þar vega þungt áhrif viðvarandi framboðshnökra sem koma m.a. fram í skorti á íhlutum í framleiðslu fjölda iðnvara og flöskuhálsum í vöruflutningum. Samspil þessara þátta og kröftugs bata vörueftirspurnar hefur leitt til mikillar hækkunar hrávöruverðs og flutningskostnaðar. Verðbólga hefur því aukist hratt um allan heim.

Vöxtur landsframleiðslunnar hér á landi var liðlega 1 prósentu minni á fyrri hluta ársins en gert var ráð fyrir í ágústspá bankans. Þótt vísbendingar séu um kröftugan vöxt á seinni hluta ársins eru horfur á lítillega minni hagvexti á árinu öllu en spáð var í ágúst eða 3,9% í stað 4%. Horfur fyrir næsta ár hafa hins vegar batnað töluvert vegna betri horfa í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Spáð er 5,1% hagvexti á árinu en að hann hjaðni í um 2½% frá árinu 2023.

Störfum heldur áfram að fjölga hratt og atvinnuleysi nálgast það stig sem það var á fyrir heimsfaraldurinn. Lausum störfum hefur jafnframt fjölgað mikið og það sama á við um fjölda fyrirtækja sem skortir starfsfólk. Útlit er fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði komið í um 4% undir lok spátímans sem er áþekkt því stigi sem talið er samræmast jafnvægi á vinnumarkaði. Vísbendingar eru einnig um að slakinn í þjóðarbúinu sé að hverfa hratt og sé jafnvel horfinn.

 

Verðbólga hefur verið þrálátari en búist var við í ágúst. Þótt áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra hafi fjarað út hafa hækkanir alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs reynst meiri en vænst var og flutningskostnaður hækkað mun meira en hægt var að sjá fyrir. Þá er enn til staðar nokkur innlendur verðbólguþrýstingur eins og sjá má í miklum hækkunum launa og húsnæðisverðs. Verðbólga mældist 4,5% í október og hefur því verið yfir 4% samfellt frá áramótum. Þótt verðbólga án húsnæðis og undirliggjandi verðbólga hafi hjaðnað eru vísbendingar um að langtímaverðbólguvæntingar hafi hækkað. Verðbólguhorfur eru því taldar hafa versnað frá fyrri spá bankans sem endurspeglar fyrst og fremst þrálátari alþjóðlegar verðhækkanir, meiri hækkun launakostnaðar og meiri spennu í þjóðarbúinu á næsta ári. Útlit er fyrir að verðbólga verði 4,7% á síðasta fjórðungi ársins sem er 0,6 prósentum umfram það sem spáð var í ágúst. Gert er ráð fyrir að hún fari fyrst undir 4% næsta vor og verði ekki komin niður fyrir 3% fyrr en á síðasta fjórðungi næsta árs.

Spár um efnahagsbata hér og erlendis byggjast að nokkru leyti á því að ekki verði bakslag í baráttunni við farsóttina. Annar veigamikill óvissuþáttur lýtur að því hversu hratt tekst að vinda ofan af þeim framboðstruflunum sem hafa leitt til mikillar hækkunar alþjóðlegs hrávöruverðs og flutningskostnaðar. Við bætist óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum í kjölfar nýafstaðinna þingkosninga og um almenna launaþróun. Auk þess er óvissa um hve hratt almenningur mun ganga á þann mikla sparnað sem byggðist upp í farsóttinni. Verðbólguhorfur gætu því verið of bjartsýnar, sérstaklega ef kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði hefur veikst.

Hægt er að kynna sér efni Peningamála í heild sinni hér: Peningamál 2021/4

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. 

Til baka