logo-for-printing

24. nóvember 2021

Hver yrðu möguleg áhrif þess ef alþjóðlegar verðhækkanir reynast þrálátari en nýjasta grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir?

Í þessari grein er fjallað stuttlega um fráviksspá sem birtist í nýjasta hefti Peningamála sem kom út 17. nóvember sl. þar sem lýst er mögulegum áhrifum þess að lengur taki að vinda ofan af alþjóðlegum framboðstruflunum en nú er gert ráð fyrir (sjá rammagrein 1 í Peningamálum 2021/4).

Alþjóðleg verðbólga hefur aukist töluvert undanfarið. Það má rekja til þess að eftirspurn hefur aukist hratt á sama tíma og flöskuhálsar hafa myndast í virðiskeðjum um allan heim vegna farsóttarinnar og ýmissa framboðsáfalla sem dunið hafa á heimsbúskapnum undanfarið ár. Verð hrávöru og aðfanga af ýmsu tagi hefur því hækkað hratt og fordæmalaus hækkun orðið á flutningskostnaði. Hrávöruverð var t.d. næstum 90% hærra í maí sl. en á sama tíma fyrir ári og útflutningsverð vöru þróaðra ríkja tæplega fimmtungi hærra. Þessar hækkanir hafa verið langt umfram það sem spár Seðlabankans og annarra spáaðila gerðu ráð fyrir. Í spá bankans frá því í nóvember í fyrra var t.d. gert ráð fyrir að alþjóðlegt olíuverð yrði um 43 Bandaríkjadalir nú í október en það reyndist næstum tvöfalt hærra eða 84 Bandaríkjadalir. Núverandi grunnspá Seðlabankans gerir jafnframt ráð fyrir því að hrávöruverð hækki um tæplega þriðjung á milli ársmeðaltala í ár en í spám bankans í fyrra var einungis gert ráð fyrir 2-2½% hækkun á árinu (mynd 1). Horfur eru því á að útflutningsverð vöru og þjónustu í helstu viðskiptalöndum hækki um ríflega 6% í ár í stað þess að hækka um 1% eins og spáð var í fyrra. Áþekk breyting hefur orðið á horfum um þróun innflutningsverðs Íslands í erlendum gjaldmiðlum.

 

Í núverandi grunnspá er gert ráð fyrir að hækkun hrávöruverðs taki að hjaðna eftir því sem tekst að vinda ofan af framboðshnökrum og aukinn hluti eftirspurnar heimila færist úr vörum yfir í þjónustu. Um þessa forsendu er hins vegar mikil óvissa. Lengri tíma gæti tekið að vinda ofan af þessum framboðshnökrum og frekara bakslag í viðureigninni við farsóttina gæti dýpkað vandann enn frekar. Verðbólguþrýstingur í heiminum gæti þá reynst þrálátari en nú er vænst. Við slíkar aðstæður gætu launþegar krafist enn meiri launahækkana til að mæta væntingum um áframhaldandi hækkun verðlags og fyrirtæki neyðst til að velta stærri hluta kostnaðarhækkana út í afurðaverð. Verðbólguvæntingar til meðallangs tíma gætu því tekið að hækka og gert verðbólguvandann enn erfiðari viðureignar sem kalla myndi á harðar aðgerðir í peningamálum til að ná tökum á verðbólgunni á ný.

Til að sýna möguleg áhrif slíkrar sviðsmyndar á innlendar efnahagshorfur er gert ráð fyrir að alþjóðlegt olíuverð haldist svipað og það er nú út spátímann í stað þess að lækka í takt við framvirkt verð eins og í grunnspánni. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að annað hrávöruverð og útflutningsverð helstu viðskiptalanda hækki samtals um tæplega 8 prósentum meira en í grunnspánni á næstu tveimur árum en að þróunin verði eins og í grunnspánni frá árinu 2024. Almenn verðbólga í helstu viðskiptalöndum verður einnig þrálátari: Í stað þess að hjaðna strax á næsta ári og fara niður fyrir 2% árið 2023 er gert ráð fyrir að hún haldist nálægt 3% á næsta ári og fari ekki niður fyrir 2% fyrr en árið 2024. Langvarandi framboðstruflanir gera það einnig að verkum að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum verður um 0,3 prósentum minni á ári á spátímabilinu. Til viðbótar er gert ráð fyrir að langvarandi innlend verðbólga yfir 4% og innfluttur verðbólguþrýstingur veiki kjölfestu verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Langtímaverðbólguvæntingar eru fyrir vikið ½ prósentu hærri en í grunnspánni á næstu fimm árum. Einnig er gert ráð fyrir að aukinn ótti við verðbólgu valdi hækkun líftímaálags (e. term premium) á innlenda langtímavexti og áhættuálags á íslensku krónuna.
 

Eins og sést á mynd 2 hefði þetta í för með sér að innflutningsverðlag myndi hækka ríflega 2 prósentum meira á ári á næstu tveimur árum (mælt í erlendum gjaldmiðlum). Gengi krónunnar lækkar einnig í samanburði við grunnspána og er hækkun innflutningsverðs í krónum því heldur meiri eða um 3 prósentur á ári á næstu tveimur árum og liðlega 1 prósenta árið 2024. Innfluttar vörur og þjónusta verða því dýrari en felst í grunnspánni og kaupmáttur heimila því minni en ella. Við bætist hærra vaxtastig innanlands (sjá hér á eftir) sem dregur úr innlendri eftirspurn. Einkaneysla vex því um samtals 2 prósentum minna en í grunnspánni á næstu þremur árum og atvinnuvegafjárfesting tæplega 5 prósentum minna. Þá hægir á vexti útflutnings vegna hægari efnahagsbata erlendis þótt lægra raungengi vegi eitthvað á móti. Áhrifin á hagvöxt eru hins vegar lítil þar sem samdráttur innlendrar eftirspurnar kemur að stórum hluta fram í samdrætti innflutnings samkvæmt þessari sviðsmynd. Óvíst er þó að hve miklu leyti útgjaldaaðlögun heimila og fyrirtækja beinist út úr landinu en reynslan af áföllum undanfarinna tveggja ára styður vissulega þessa niðurstöðu þjóðhagslíkans bankans.

Meiri alþjóðlegar verðhækkanir og lækkun á gengi krónunnar valda því að verðbólga verður um 0,5 prósentum meiri en í grunnspánni á næsta ári og allt að 1 prósentu meiri árið 2023. Frá þeim tíma taka áhrifin smám saman að fjara út á ný. Verðbólga helst þó yfir 4% fram eftir næsta ári og yfir 3% allan spátímann. Meginvextir Seðlabankans eru orðnir tæplega 1 prósentu hærri en í grunnspánni á næsta ári og helst munurinn út spátímann svo að tryggja megi að verðbólga þokist niður í verðbólgumarkmiðið er frá líður. Viðbrögð peningastefnunnar þurfa hins vegar ekki að vera eins mikil ef langtímaverðbólguvæntingar haldast í markmiði þar sem verðbólga eykst minna og hjaðnar hraðar en fráviksdæmið sýnir.

 

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands

Til baka