logo-for-printing

24. maí 2023

Peningamál í hnotskurn

Þótt hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum hafi gefið eftir undanfarið hefur hann reynst þróttmeiri en gert var ráð fyrir í febrúarspá Peningamála. Hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár hafa því heldur batnað. Áfram er þó gert ráð fyrir slökum hagvexti í ár og á næsta ári eða um 1% að meðaltali á ári. Alþjóðleg verðbólga hefur hjaðnað en undirliggjandi verðbólga er áfram mikil sem bendir til þess að enn sé nokkuð í land að koma mældri verðbólgu niður í markmið.

Hagvöxtur hér á landi mældist 6,4% í fyrra sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan árið 2007. Vöxturinn var drifinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar, sérstaklega einkaneyslu sem jókst um 8,6% milli ára. Hagvöxtur var þó heldur minni en gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans sem endurspeglar óhagstæðari utanríkisviðskipti og áhrif breyttrar meðhöndlunar Hagstofu Íslands á hugverkum í lyfjaiðnaði en á móti vó meiri vöxtur innlendrar eftirspurnar. Svo virðist sem hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið töluvert meiri en spáð var í febrúar og því er útlit fyrir að hann verði meiri á árinu í heild. Nú er spáð 4,8% hagvexti á árinu í stað 2,6% í febrúar. Þar vega horfur á meiri vexti innlendrar eftirspurnar þungt en einnig betri horfur í ferðaþjónustu og áhrif fyrrnefndrar aðferðafræðibreytingar Hagstofunnar. Hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár eru hins vegar svipaðar og í febrúar.

Heildarvinnustundum fjölgaði áfram á fyrsta fjórðungi þessa árs eftir mikla fjölgun fjórðunginn á undan. Framboð á vinnuafli hefur einnig aukist og því hefur atvinnuleysi lítið breyst undanfarið ár og er sem fyrr talið nokkru undir því sem talið er samræmast jafnvægi í þjóðarbúinu og verðstöðugleika. Áfram er töluverð spenna á vinnumarkaði en talið er að hægja muni á fjölgun starfa, atvinnuleysi aukist og spennan í þjóðarbúinu minnki þegar líður á spátímann.

 

 

Verðbólga jókst áfram í febrúar og mældist 10,2% og hafði ekki verið meiri síðan haustið 2009. Hún hefur síðan hjaðnað lítillega á ný og var 9,9% í apríl. Verðbólga án húsnæðisliðar hefur aukist frá ársbyrjun og var 8,7% í apríl. Undirliggjandi verðbólga hefur að sama skapi aukist og miklar verðhækkanir mælast í æ stærri hluta neyslukörfunnar. Þótt hjöðnun alþjóðlegrar verðbólgu vegi á móti er innlendur verðbólguþrýstingur mikill og meiri en gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans. Horfur eru því á að verðbólga verði meiri í ár og á næsta ári en þá var spáð. Þar vegur lakari upphafsstaða í byrjun spátímans þungt en einnig að horfur eru á meiri spennu í þjóðarbúinu í ár þótt hærra gengi krónunnar vegi á móti. Samkvæmt spánni verður verðbólga yfir 8% út þetta ár, fer ekki undir 4% fyrr en seint á næsta ári og verður ekki komin undir 3% fyrr en líða tekur á árið 2026.

Óvenju mikil óvissa hefur verið í alþjóðlegum efnahagsmálum um nokkurt skeið og á því er engin breyting nú. Áföll undanfarinna ára hafa verið mörg og án fordæma: heimsfaraldur og styrjöld í Evrópu leiddu til alvarlegra framboðshnökra og verulegrar hækkunar orku- og hrávöruverðs sem heimsbúskapurinn er enn að bíta úr nálinni með. Alþjóðlegar efnahagshorfur gætu því verið of bjartsýnar. Það sama á við um innlendar verðbólguhorfur enda hefur kjölfesta verðbólguvæntinga laskast og því hætta á auknum áhrifum gengis- og launabreytinga á verðbólgu og að víxlverkun launa og verðlags fari af stað.

Höfundur: Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Peningamál 2023/2 má nálgast hér: Peningamál 2023/2

Til baka