Gjaldeyrisforði
Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands samanstendur af erlendum eignum bankans í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. innstæðum í erlendum bönkum, skuldabréfaeign, sérstökum dráttarréttindum og inneign hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), gulli og öðrum erlendum eignum.
Hlutverk gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands
- Draga úr áhrifum sveiflna í greiðslujöfnuði landsins, þ.e. greiðslum á milli Íslands og útlanda, t.d. með inngripum á gjaldeyrismarkaði, með hliðsjón af stefnu bankans í peninga- og gengismálum.
- Draga úr líkum á að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika.
- Gjaldeyrisforðinn er þáttur í eigna- og skuldastýringu ríkissjóðs og Seðlabankans með það að markmiði að íslenska ríkið geti staðið skil á erlendum skuldum sínum, greitt erlend útgjöld og staðið við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.
- Gjaldeyrisforðinn er öryggissjóður sem hægt er að grípa til ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem setja strik í gjaldeyrisöflun.
Stýring og varðveisla gjaldeyrisforða
Seðlabanki Íslands stýrir gjaldeyrisforðanum samkvæmt lögum um bankann nr. 92/2019 í samræmi við markmið sín og hlutverk sem seðlabanki. Starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisforða eru settar með vísan til 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 30. gr. laganna. Reglurnar eru settar af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum. Fjárhagsáhætturáð Seðlabankans er þeim til ráðgjafar um varðveislu gjaldeyrisforða auk þess að annast eftirlit með að farið sé að starfsreglum þessum. Í starfsreglunum er fjallað um helstu atriði varðandi varðveislu gjaldeyrisforða, m.a. um tilgang, skipulag, heimilar fjárfestingar og ytri mörk ásættanlegrar áhættu.
- Á síðunni Talnaefni má sjá nánari upplýsingar um stöðu gjaldeyrisforða.