Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt
Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í dag þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS. Endurskoðanirnar eru alls sjö.
Þessi afgreiðsla framkvæmdastjórnar sjóðsins felur í sér að fjórði áfangi lánafyrirgreiðslunnar verður til reiðu. Fjárhæðin nemur 105 milljónum SDR. Þetta er jafnvirði 162 milljóna Bandaríkjadala eða tæplega 19 milljarða íslenskra króna. Heildarfjárhæð lánveitinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við áætlunina til þessa nemur 875 milljónum SDR, sem er jafnvirði um 1,4 milljarða Bandaríkjadala eða 154 milljarða króna.
Við samþykkt stjórnar AGS er einnig gert ráð fyrir lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndum að fjárhæð 444 milljónir evra og Póllandi að fjárhæð 71 milljón Bandaríkjadala (210 milljónir PLN).
Reglubundin umræða í framkvæmdastjórn Sjóðsins um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum fyrir árið 2010 (e. 2010 Article IV Consultation) fór fram á sama tíma og umræða um þriðju endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.
Sjá nánar tilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytis í dag:
Tilkynning efnahags- og viðskiptaráðuneytis