Fjórða endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS samþykkt
Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í dag fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS. Endurskoðanirnar eru alls sjö.
Þessi afgreiðsla framkvæmdastjórnar sjóðsins felur í sér að fimmti áfangi lánafyrirgreiðslu sjóðsins er til reiðu eða 105 milljónir SDR. Það er jafnvirði um 160 milljóna Bandaríkjadala eða tæplega 19 milljarða íslenskra króna.
Eftir þessa endurskoðun hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greitt út sem nemur 980 milljónum SDR af 1,4 milljörðum SDR sem hann lánar í tengslum við áætlunina. Lánsfjárhæðin 980 milljónir SDR jafngildir tæplega 1,5 milljörðum Bandaríkjadala eða rúmlega 176 milljörðum króna.
Rétt er að geta þess að ádráttartími lána frá Norðurlöndunum í tengslum við efnahagsáætlunina verður framlengdur til ársloka 2011. Það er gert með hliðsjón af töfum sem orðið hafa á upphaflegri áætlun. Helmingur heildarfjárhæðinnar, sem er 1.775 milljónir evra, hefur þegar verið nýttur, en með þessari samþykkt hefur Ísland aðgang að seinasta fjórðungi lánanna, tæplega 444 milljónum evra. Þriðji hluti þeirra var aðgengilegur strax að lokinni þriðju endurskoðun en hefur ekki verið nýttur vegna rúmrar erlendrar lausafjárstöðu Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs. Einnig er umsamið lán frá Póllandi nú aðgengilegt að fullu en þriðjungur af heildarfjárhæðinni, sem er 630 milljónir PLN, hefur verið nýttur nú þegar.
Sjá nánar tilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytis í dag:
Tilkynning efnahags- og viðskiptaráðuneytis
Sjá ennfremur vef AGS:
Ísland og AGS