logo-for-printing

30. desember 2013

Endurskoðun á gjaldmiðlavogum 2013

Gjaldmiðlavogum sem liggja til grundvallar útreikningum á vísitölum meðalgengis hefur verið breytt í ljósi utanríkisviðskipta ársins 2012. Endurskoðun fór síðast fram í upphafi árs 2013. Meðfylgjandi töflur sýna nýju vogirnar og breytingar frá fyrri vogum. Nýju vogirnar gilda frá og með 1. janúar 2014 til næstu endurskoðunar að ári.

Gjaldmiðlavogirnar eru endurskoðaðar árlega í ljósi samsetningar utanríkisviðskipta árið áður. Markmiðið er að þær endurspegli eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar, bæði vöru- og þjónustuviðskipta. Árið 2011 hóf Hagstofa Íslands að afla upplýsinga um landaskiptingu þjónustuviðskipta þjóðarinnar og því er nú í fyrsta sinn hægt að hafa þau með í 3 ára meðaltali heildarutanríkisviðskipta. Því byggist val á gjaldmiðlum í vogir héðan af á bæði vöru- og þjónustuviðskiptum. Helstu breytingar frá fyrri vogum eru eftirfarandi: 

Þröng vöruskiptavog (A), þröng þjónustuvog (C) og þröng viðskiptavog (E):

  • Sádi-Arabískt ríal bætist við.

  • Nígerísk næra fellur út.

  • Litháenskt litas fellur út.

Víð vöruskiptavog (B), víð þjónustuvog (D) og víð viðskiptavog (F):

  • Sádi-Arabískt ríal bætist við.

  • Venesúelskur bólivari bætist við.

  • Ástralíudalur fellur út.

Aðrar breytingar eru þær helstar í vöruviðskiptavogunum að vægi evrunnar minnkar, auk minnkunar japanska jensins, pólska slotsins og indverskrar rúpíu en vægi norsku krónunnar, kínverska júansins og brasilíska ríalsins eykst. Helstu breytingar á þjónustuvog eru aukning á vægi sádi-arabíska ríalsins, Bandaríkjadals og venesúelsks bólivara, en vægi evrunnar, sænsku og dönsku krónunnar og breska pundsins minnkar. Viðskiptavogirnar endurspegla þessar breytingar að mestu leyti og er mesta breyting frá fyrri vog í minnkun á vægi evrunnar. Mest er aukningin á vægi sádi-arabíska ríalsins, en jafnframt eykst vægi Bandaríkjadals, norsku krónunnar og kínverska júansins.

Töflur er sýna nýju vogirnar og breytingar frá fyrri vogum:

Vogir 2013, byggðar á gögnum 2012

Vogir 2013

Til baka