Seðlabanki Íslands gerir samkomulag við eigendur aflandskróna
Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag við eigendur krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sbr. lög nr. 37/2016. Í samkomulaginu felst að Seðlabankinn kaupir af þeim aflandskrónueignir að fjárhæð um 90 milljarðar króna á genginu 137,5 krónur á evru. Aflandskrónueigendum sem ekki hafa gert samkomulag við bankann verður boðið að gera sams konar samninga á næstu tveimur vikum. Samkomulagið er gert á grundvelli heimildar Seðlabankans til slíkra viðskipta, samanber 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis III í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.
Með lögum nr. 37/2016 var mælt fyrir um meðferð aflandskrónueigna og þær afmarkaðar sérstaklega. Þessi afmörkun var talin nauðsynleg þar sem framundan voru stór skref við losun hafta á heimili og fyrirtæki og gjaldeyrisforði var ekki talinn nægur til að tryggja stöðugleika ef full losun fjármagnshafta ætti sér stað samtímis.
Frá samþykkt frumvarps til laga um losun fjármagnshafta í október síðastliðnum hefur verið dregið verulega úr takmörkunum sem voru á heimili og fyrirtæki til gjaldeyrisviðskipta, án þess að það leiddi til teljandi útflæðis á gjaldeyri. Á sama tíma hefur gjaldeyrisforði stækkað umtalsvert. Þessi þróun ásamt ofangreindu samkomulagi dregur úr áhættu við áframhaldandi losun fjármagnshafta.
Frá því að þríþætt áætlun um losun fjármagnshafta var kynnt í júní 2015 hefur gjaldeyrisforði Seðlabankans aukist úr tæpum 600 ma.kr. í rúmlega 800 ma.kr. í lok febrúar á þessu ári þrátt fyrir endurgreiðslur erlendra lána, hækkun á gengi krónunnar og gjaldeyrisútboð í júní síðastliðnum. Stækkun forðans gerir Seðlabankanum mögulegt að ganga til ofangreindra viðskipta. Eftir viðskiptin verður forðinn vel yfir því viðmiði sem stefnt var að í aðdraganda losunar fjármagnshafta.
Samkvæmt mati Seðlabankans námu aflandskrónueignir tæplega 200 ma.kr. í lok febrúar sl. Eftir að viðskiptin sem nú hafa verið tilkynnt hafa gengið í gegn mun fjárhæð aflandskrónueigna sem eftir standa nema um 100 ma.kr. Breytingar sem gerðar voru á reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál í dag hafa ekki áhrif á heimildir aflandskrónueigenda, en aflandskrónueigendum sem ekki eiga aðild að samkomulaginu verður boðið að eiga viðskipti við Seðlabankann á sama gengi og samkomulagið hljóðar upp á næstu tvær vikurnar, eins og áður segir.
Með viðskiptunum hefur hættunni á að stór hluti aflandskróna streymdi á stuttum tíma út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn við losun fjármagnshafta verið bægt frá. Verulega hefur því dregið úr kerfislegri áhættu sem fólst í miklum aflandskrónueignum og hefði að mati Seðlabankans getað valdið óstöðugleika í gengis- og peningamálum auk fjármálaóstöðugleika.
Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.
Nr. 8/2017
12. mars 2017