Fara beint í Meginmál
Það er gott að huga að lífeyrissréttindum sínum strax við upphaf starfsævinnar. Lífeyrissjóðir greiða ellilífeyri til æviloka, greiðslurnar eru annars vegar greiddar úr samtryggingarsjóði og hins vegar séreignarsjóði. Fjárhæð lífeyrisgreiðslna ræðst af þeim iðgjöldum sem greidd eru á starfsævinni ásamt ávöxtun sjóðsins. Ítarlegar upplýsingar um lífeyrismál er að finna á www.lifeyrismal.is.

Lífeyrissjóðir

  • Lífeyrissjóðir hafa það hlutverk að taka við iðgjöldum sjóðfélaga, ávaxta þau og greiða lífeyri.
  • Lífeyrissjóður greiðir þér ellilífeyri til æviloka, tekjumissi vegna slyss eða veikinda (örorkulífeyrir) og greiðir maka og börnum lífeyri ef þú fellur frá (maka- og barnalífeyrir).
  • Á Íslandi er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi á aldrinum 16 – 70 ára skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði.
  • Val á lífeyrissjóði er í mörgum tilfellum bundið í kjarasamningi eða sérlögum. Ef kjarasamningur tiltekur ekki lífeyrissjóð getur þú valið þér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa.
  • Kynntu þér réttindi sem byggjast upp í lífeyrissjóðnum þínum.
  • Skoðaðu www.lifeyrismal.is þar er að finna gagnlegar upplýsingar um lífeyrismál.

Samtrygging

  • Á Íslandi er í gildi það sem kallað er skyldubundið samtryggingakerfi. Allir launamenn og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur frá 16 til 70 ára aldurs ber skylda að greiða 15,5% iðgjald af heildarlaunum sínum í lífeyrissjóð.
  • Iðgjaldið skiptist á milli launamanns og atvinnurekanda, launamaður greiðir 4% og launagreiðandi að lágmarki 11,5%.
  • Með greiðslu iðgjalda í samtryggingarkerfi sameinast sjóðfélagar um að tryggja hver öðrum lífeyri til æviloka.
  • Samtryggingin ver sjóðfélaga og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku eða andláts. 
  • Lífeyrisréttindi í samtryggingarsjóðum erfast ekki.
  • Lífeyrisréttindi í samtryggingarsjóðum veita tryggingu til lífeyrisgreiðslna til æviloka auk þess sem þau veita réttindi til greiðslna örorku-, maka- og barnalífeyris.
  • Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi.
  • Makalífeyrir er greiddur til eftirlifandi maka látins sjóðfélaga.

Viðbótarlífeyrissparnaður

  • Launþegar og þeir sem eru sjálfstætt starfandi geta valið að greiða allt að 4% af heildarlaunum sínum viðbótarlífeyrissparnað.
  • Launagreiðendur greiða 2% af launum starfsmanns í mótframlag til viðbótar við það sem launamaður greiðir sjálfur.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður erfist að fullu.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til úttektar við 60 ára aldur og getur því auðveldað fólki að fara fyrr á eftirlaun.
  • Ef einstaklingur verður gjaldþrota er ekki hægt að ganga að viðbótarlífeyrissparnaði.
  • Gera þarf samning við vörsluaðila og velja ávöxtunarleið.
  • Við úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar er greiddur tekjuskattur og því er hægt að nota persónuafslátt til að lækka skattinn.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður er hagstæður sparnaður þar sem mótframlag launagreiðanda eykur sparnaðinn.
  • Ef byrjað er snemma að greiða viðbótarlífeyrissparnað safnast vaxtavextir upp og geta orðið meirihluti sparnaðarins.
  • Heimilt er að taka viðbótarlífeyrissparnað út ef skyndilega veikindi eða slys valda því að starfsorka skerðist.
  • Hægt er að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða skattfrjálst inná húsnæðislán allt að 500.000 kr. á ári fyrir einstakling og 750.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk vegna húsnæðis til eigin nota. Þessi heimild er í gildi til 31. desember 2025.
  • Við kaup á fyrstu íbúð er heimilt að nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inná lán í samfleytt 10 ár að hámarki 5.000.000 kr.
  • Við kaup á fyrstu íbúð er heimilt að nota viðbótarlífeyrissparnað til að spara fyrir útborgun allt að 500.000 kr. á einstakling miðað við 12 mánaða tímabil.
  • Ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar hefur ekki áhrif á önnur úrræði, t.d. húsnæðisbætur, barnabætur, vaxtabætur og atvinnuleysisbætur.

Tilgreind séreign

  • Launþegar og þeir sem eru sjálfstætt starfandi geta ráðstafað allt að 3,5% af lágmarksiðgjaldi í tilgreinda séreign.
  • Ef ekkert er valið rennur iðgjaldið sjálfkrafa í samtryggingardeild.
  • Gera þarf samning við vörsluaðila og velja ávöxtunarleið.
  • Tilgreinda séreign má taka út 5 árum fyrir lífeyristökualdur sem oftast er 62 ára (67 ára viðmið).
  • Það er hægt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  • Tilgreind séreign erfist til eftirlifandi maka og barna eins og annar séreignarsparnaður.
  • Ávinnsla réttinda til ævilangs ellilífeyris eða örorku- og makalífeyris, reiknast ekki af tilgreindri séreign.

Lífeyristryggingarsamningar

Lífeyristryggingarsamningur er vátrygging þar sem vátryggingafélag greiðir fjárhæð fyrir tiltekið tímabil, ýmist til æviloka eða þar til einstaklingur nær ákveðnum aldri. Heimilt er að nota þann hluta lífeyrissparnaðar einstaklinga sem telst til viðbótartryggingaverndar, séreignar og tilgreindrar séreignar til greiðslu iðgjalds tryggingarinnar. Neðangreind umfjöllun tekur til lífeyristryggingarsamninga þegar lífeyrissparnaður er nýttur til greiðslu iðgjaldsins.  

Samningur um viðbótarlífeyrissparnað, séreign eða tilgreinda séreign sem gerður er við lífeyrissjóð eða lánastofnun byggist á sjóðasöfnun. Í því felst að iðgjald sjóðfélagans rennur til þeirrar leiðar sem sjóðfélagi ákveður og sér lífeyrissjóðurinn eða lánastofnunin um að fjárfesta iðgjaldinu í samræmi við fjárfestingastefnu leiðarinnar.  

Sjóðfélaginn ber alla fjárfestingaráhættu, en jafnframt alla hagnaðarvon. Lífeyrissjóðurinn eða lánastofnunin lofar engu um hver greiðsla til sjóðfélagans verður í framtíðinni, slíkt ræðst af ávöxtun fjárfestinga. 

Þessu er öðruvísi farið með lífeyristryggingar, þar sem vátryggingafélagið lofar greiðslu ákveðinnar upphæðar í framtíðinni gegn greiðslu iðgjalds í ákveðinn árafjölda, gjarnan í 30-40 ár. Áhætta sjóðfélagans felst meðal annars í því að vátryggingafélagið geti ekki staðið við loforð sitt um greiðslu upphæðarinnar. Í vissum tilvikum á vátryggingartaki rétt á hlutdeild í hagnaði vátryggingafélagsins af fjárfestingum, en um hlutdeildina gilda flóknar reglur sem eru breytilegar eftir samningum. Þá eru einnig til samningar þar sem hluta iðgjaldsins er varið til fjárfestinga í sjóði sem rekinn er af tryggingafélaginu og hefur gengi sjóðsins áhrif á virði tryggingarinnar. 

Kostnaður vegna lífeyristryggingarsamninga fellur að mestu til í byrjun samningstímans (e. front-loaded cost). Þetta þýðir að á fyrstu árum samningstímans rennur stór hluti iðgjaldsins í kostnað. Eftir það greiðir vátryggingartaki árlegan umsýslukostnað. Samningar sem gerðir eru við lífeyrissjóði og lánastofnanir gera allir ráð fyrir því að kostnaður falli til árlega og sé dreginn af viðkomandi leið. Sjá má yfirlit yfir kostnaðarhlutfall séreignardeilda í Samantekt Seðlabankans á ársreikningum lífeyrissjóða, en sem dæmi nam hlutfall fjárfestingargjalda af heildareignum allra séreignaleiða 0,37% árið 2024 og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna nam 0,2%.

Dreifingaraðilar og einstakir vátryggingasölumenn skulu hafa næga þekkingu á afurðum sem dreift er og geta svarað öllum spurningum sem viðskiptavinur getur haft um tiltekin samning. Vátryggingasölumenn sem selja lífeyristryggingarsamninga þurfa þar af leiðandi einnig að hafa góða þekkingu á lífeyrismálum á Íslandi til að geta veitt nauðsynlegar upplýsingar til viðskiptavina. 

Spurningar geta varðað atriði í samningi eða fylgigögnum við hann, svo sem um hvaða áhætta hvílir á viðskiptavininum, hvaða gjöld leiða af samningnum, hvernig réttindaávinnslu er háttað og hvaða áhrif það hefur að slíta samningnum á líftíma hans.  

Upplýsingagjöf um lífeyristryggingarsaminga þarf að taka til atriða sem geta haft áhrif á lífeyrisréttindi viðskiptavinar. Það er mikilvægt að viðskiptavinir hafi tækifæri til að spyrja spurninga til að tryggja skilning um þau áhrif.  

Samningar um lífeyristryggingar eru jafnan flóknir og geta varðað miklu um fjárhagslega hagsmuni fólks. Til að geta áttað sig vel á upplýsingum um þessa samninga ættu viðskiptavinir að taka sér nægan tíma til umhugsunar og jafnvel óska eftir að fá skrifleg svör við spurningum sem vakna til að geta farið yfir þau í ró og næði.  

Í II. kafla laga nr. 30/2004 er fjallað um upplýsingaskyldu sem sölumenn þurfa að lágmarki að veita áður en samningur er gerður. Fjármálaeftirlitið hvetur neytendur til að lesa hvaða kröfur eru gerðar til upplýsingagjafar. Til dæmis eru kröfur gerðar um upplýsingar um: 

  • Hvort ráðgjöf er veitt 
  • Hvernig endurgjaldi er háttað fyrir gerð samninga
  • Hvernig hægt er að leggja fram kvörtun um störf vátryggingamiðlara, þ.m.t. sölumenn 
  • Hagsmunaárekstra
  • Tengsl við vátryggingafélög  

Í tilvikum lífeyristrygginga eiga viðskiptavinir einnig að fá svokallað lykilupplýsingaskjal í hendurnar áður en þeir skrifa undir samning. Skjalið, sem á að vera á íslensku og að hámarki þrjár blaðsíður, veitir neytendum helstu og mikilvægustu upplýsingarnar um eiginleika hverrar afurðar eins og heitið ber með sér. Dæmi um lykilupplýsingar eru upplýsingar um áhættu og kostnað.  

Að mati fjármálaeftirlitsins er dæmi um góða framkvæmd að sölumenn fari yfir lykilupplýsingaskjölin munnlega með viðskiptavinum áður en samningur er gerður og svari spurningum sem geta vaknað. Það gefur viðskiptavinum betra tækifæri á því að skilja lykilþætti fjárfestingar sinnar. 

Þarfagreiningu er ætlað að skilgreina hverjar kröfur og þarfir viðskiptavinar eru, þ.e. hvort afurð henti út frá aðstæðum hvers og eins t.a.m. aldri, tekjum og starfsgrein. Þetta er gert til þess að athuga hvort að afurð sem viðskiptavinur hefur hug á að kaupa henti honum. Þarfagreining á því bæði að taka mið af flækjustigi afurðar og viðskiptavininum.   

Veita skal upplýsingar um þarfagreiningu á pappír eða öðrum varanlegum miðli. 

Þarfagreining er ófrávíkjanleg krafa samkvæmt lögum og hana þarf að gera áður en samningur er gerður.  

Að mati fjármálaeftirlitsins er dæmi um góða framkvæmd að í kjölfar þarfagreiningar sé niðurstaða hennar útskýrð vel og vandlega fyrir viðskiptavini og öllum spurningum viðskiptavinar svarað. Með því móti getur viðskiptavinur áttað sig betur á þörfum sínum og getu til fjárskuldbindinga. 

Það á að liggja ljóst fyrir hvort viðskiptavinur fái ráðgjöf eða ekki um tiltekna afurð, til að viðskiptavinur geti áttað sig á hvaða þjónusta er veitt og hvaða skyldur eiga við.  

Ráðgjöf byggir á þarfagreiningu viðskiptavinar en gengur lengra. Í ráðgjöf felst að veita viðskiptavini persónulega ráðleggingu um tiltekna vátryggingu og útskýra hvers vegna hún samræmist best þörfum hans. 

Ráðgjöf ætti því ávallt að vera í samræmi við niðurstöður þarfagreiningar, enda ber dreifingaraðila og sölumönnum að hafa hagsmuni viðskiptavinar að leiðarljósi.  

Veita skal upplýsingar um ráðgjöf á pappír eða öðrum varanlegum miðli. 

Þarfagreining felur í sér hlutlausa upplýsingagjöf um mögulega valkosti af hálfu dreifingaraðila, í samræmi við þarfir viðskiptavinar. Ráðgjöf er veitt út frá tiltekinni afurð og felur í sér persónulega ráðleggingu sem felur í sér útskýringu á því hvers vegna hún telst samræmast best þörfum viðskiptavinar. 

Viðskiptavinir eiga að fá upplýsingar um hvaða endurgjald vátryggingamiðlari þiggur og hvaða form er á því. Í því felst upplýsingagjöf um hvort hann starfi: 

  1. gegn gjaldi sem viðskiptavinur greiðir, 
  2. gegn því að fá umboðslaun af einhverju tagi, þ.e. að endurgjaldið sé innifalið í iðgjaldinu, 
  3. gegn annars konar endurgjaldi, þar á meðal hvers konar efnahagslegum ávinningi vegna vátryggingarsamningsins eða 
  4. gegn samsettu endurgjaldi skv. a-, b- eða c-lið. 

Fjármálaeftirlitið bendir á að skýrt skal koma fram hvort viðskiptavinur eða vátryggingafélag greiði endurgjaldið. Í þessu samhengi vill fjármálaeftirlitið árétta að sú þóknun sem vátryggingamiðlari fær greidda fyrir sölu samnings, á alltaf uppruna sinn hjá viðskiptavini, þ.e. óháð því hvort að viðskiptavinur greiði hana beint til vátryggingamiðlara eða til vátryggingafélags í gegnum greiðslu iðgjalda, sem greiðir svo vátryggingamiðlara í kjölfarið.  

Það er dæmi um góða framkvæmd að neytendur fái skriflegar upplýsingar í formi krónutölu um endurgjald sem vátryggingamiðlarar, sem og einstakir sölumenn, fá fyrir sölu lífeyrisafurðar til viðkomandi neytanda. Ef ekki liggja fyrir upplýsingar um þetta að frumkvæði sölumanns ættu viðskiptavinir að íhuga að biðja um upplýsingarnar.  

Ef vátryggingartakar vilja segja samningum upp er ráðlegt að senda uppsögnina skriflega. Vátryggingartakar eru hvattir til þess að kynna sér vel réttindi sín í kjölfar uppsagnar, þ.e. hver ávinnsla þeirra hefur verið frá gildistöku samningsins. 

Í þessu samhengi nefnir fjármálaeftirlitið að lífeyristryggingarsamningar eru oft byggðir upp með þeim hætti að kostnaður  vegna þeirra fellur að miklu leyti til í byrjun samningstímans sem þýðir að á fyrstu árum samningstímans rennur stór hluti greidds iðgjalds í kostnað. Sé lífeyristryggingarsamningi sagt upp og fjárfest í öðrum sambærilegum samningi hefst þetta ferli að nýju, þ.e. greidd iðgjöld fyrstu árin renna að stórum hluta í kostnað.  Með þeim hætti getur hægst á ávinnslu séreignar vátryggingartaka  og er því ávallt mælt með því að vátryggingartakar kynni sér áhrif uppsagnar. 

Fjármálaeftirlitið vill benda á að ytri aðstæður geta leitt til þess að einstaklingur þurfi að skipta um lífeyrissjóð, til dæmis ef hann skiptir um vinnu með þeim afleiðingum að hann hafi ekki lengur val um að ráðstafa hluta af lágmarksiðgjaldi inn á tilgreinda séreign. Hafi viðkomandi gert lífeyristryggingasramning og notað tilgreinda séreign til að greiða iðgjaldið getur hann verið útsettur fyrir verulegri fjárhagslegri áhættu, sérstaklega á fyrstu árum samningsins. Ástæðan er sú að kostnaður og þóknanir sem teknar eru af þessum vörum eru oft mjög háar í upphafi.  

Vátryggingataki hefur 30 daga frest til þess að segja upp vátryggingunni frá þeim tíma sem honum berst tilkynning um að samningurinn taki gildi, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. 

Þannig geta neytendur sagt upp samningnum án afleiðinga sé það gert innan 30 daga frá gildistöku samningsins. 

Seðlabanki Íslands veitir vátryggingafélögum og vátryggingamiðlurum starfsleyfi og hefur eftirlit með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um hana. Auk þessara aðila geta vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar sem fengið hafa starfsleyfi eða skráningu í öðru ríki á EES-svæðinu veitt þjónustu hér á landi og hefur Seðlabankinn eftirlit með viðskiptaháttum þeirra vegna starfsemi hér á landi. 

Seðlabankinn veitir umsögn áður en fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfestir reglur vörsluaðila sem óskar eftir að bjóða samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað, s.s. lífeyristryggingarsamninga, á grundvelli heimildar í lögum um  skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  

Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar starfi í samræmi við reglur nr. 353/2022 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana. Seðlabankinn hefur jafnframt eftirlit með varúðarkröfum þeirra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hérlendis. 

Seðlabanki Íslands bendir á upplýsingar á vefnum um úrræði neytenda, en hann leiðbeinir neytendum að öðru leyti um úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum. Hér má nálgast verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga

Seðlabanki Íslands tekur við ábendingum neytenda ef starfshættir vátryggingafélaga  og vátryggingamiðlara eru ekki í samræmi við lög og reglur. Hægt er að senda ábendingu eða fyrirspurn hér

Seðlabanki Íslands hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fjallar um ágreining um bótaskyldu milli neytenda og vátryggingafélaga. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa úrskurðar  í ágreiningsmálum milli neytenda og seljenda, þ.m.t. vátryggingamiðlara.