Fjármálastöðugleikanefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika, í samræmi við lög nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu. Dæmi um stjórntæki varðandi fjármálastöðugleika eru reglur um eiginfjárauka, gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun fjármálafyrirtækja og reglur sem setja áhættutöku lántakenda mörk, svo sem takmarkanir á veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutföllum fasteignalána.
Í fjármálastöðugleikanefnd sitja seðlabankastjóri, allir varaseðlabankastjórarnir þrír og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaða eða hagfræði sem ráðherra, sem fer með málefni fjármálastöðugleika, skipar til fimm ára í senn. Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytis sem fer með málefni fjármálastöðugleika á sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Samsetning fjármálastöðugleikanefndar skal vera þannig að meðlimir nefndarinnar búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem henni eru falin. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í fjármálastöðugleikanefnd tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans.
Verkefni fjármálastöðugleikanefndar
Verkefni fjármálastöðugleikanefndar eru að:
- Leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika. Kerfisáhætta er hættan á því að samspil fjármálakerfis og þjóðarbúskapar valdi hagsveiflumögnun, hættan á því að fjármálafyrirtæki verði viðkvæm fyrir aðgerðum annarra aðila og hættan á atburðarás sem getur ógnað fjármálastöðugleika með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á þjóðarbúskapinn. Kerfisáhætta getur því sprottið af samspili efnahagsumsvifa, markaðsþróunar, fjölmargra fjármálagerninga, réttinda, skyldna og athafna fjölda fólks og fyrirtækja í hagkerfinu.
- Fjalla um og skilgreina þær aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið, í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika, og beina í því skyni ábendingum til viðeigandi stjórnvalda þegar tilefni er til.
- Samþykkja stjórnvaldsfyrirmæli og taka þær ákvarðanir sem nefndinni er falið að taka með lögum.
- Ákveða hvaða eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika.