Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans er varða fjármálastöðugleika. Í fjármálastöðugleika felst að fjármálakerfið geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.
Á fundi nefndarinnar 28. nóvember og 1. og 2. desember 2025 fékk hún kynningu á stöðu og horfum í efnahagsmálum og fyrir fjármálastöðugleika. Nefndin ræddi helstu áhættuþætti fjármálastöðugleika á Íslandi og alþjóðlega þróun. Meðal annars var farið yfir þróun á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðu á fasteignamarkaði og viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja, þ. á m. eiginfjár- og lausafjárstöðu þeirra. Þá ræddi nefndin sviðsmyndir fyrir álagspróf Seðlabankans á kerfislega mikilvæga banka fyrir næsta ár. Nefndin ræddi lánþegaskilyrðin almennt og í tengslum við aðkomu fasteignafélaga og sjóða að fasteignakaupum einstaklinga. Nefndin ræddi sömuleiðis uppfært mat á því hvaða lánastofnanir teljist kerfislega mikilvægar. Þá fékk nefndin kynningu á þáttum er snúa að net- og rekstraröryggi á fjármálamarkaði og yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum.