Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að gera breytingar á reglum nr. 1130/2025 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, ásamt því að setja nýjar reglur um yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum og reglur um atvikamiðstöð fjármálainnviða. Framangreindar breytingar og reglur voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar 1.-2. desember, sbr. yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var í dag.
Breyting á reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána
Á undanförnum vikum hefur verið tilkynnt um fjölda sjóða sem hyggjast fjárfesta með einstaklingum í íbúðarhúsnæði. Ljóst er að þetta fyrirkomulag er áhættusamara en almenn íbúðakaup vegna lægra eiginfjárframlags kaupenda og hægari eiginfjármyndunar. Þá er talið að fyrirkomulagið sé til þess fallið að grafa undan markmiðum lánþegaskilyrða Seðlabankans. Í ljósi þessa samþykkti nefndin breytingar á 4. gr. reglna um nr. 1130/2025 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, þar sem fjallað er um viðmið við útreikning á hámarks greiðslubyrði. Með breytingunni er skýrt að við útreikning á greiðslubyrði skuli litið til allra greiðslna sem falla til hjá einstaklingum við öflun íbúðarhúsnæðis. Þannig er með breytingunum tekið fram að þegar einstaklingur á íbúðarhúsnæði í sameign með aðila sem eignast eða heldur á eignarhlut sínum í íbúðarhúsnæðinu í atvinnuskyni, skuli við mat á greiðslubyrði miða við greiðslu einstaklingsins til þess aðila vegna afnota á eignarhlut hans, óháð því hvenær þær koma til greiðslu.
Reglunum verður breytt í samræmi við framangreint og þær endurútgefnar undir sama heiti. Reglurnar verða birtar á vef Stjórnartíðinda síðar í dag og taka gildi á morgun, 4. desember 2025.
Sjá reglur nr. 1300/2025 á vef Stjórnartíðinda: Reglur nr. 1300/2025 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda.
Reglur um yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum og um atvikamiðstöð fjármálainnviða
Með reglum um yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum er kveðið á um þau viðmið sem liggja til grundvallar mati fjármálastöðugleikanefndar við ákvörðun um hvaða innviðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Einnig er kveðið á um framkvæmd yfirsýnar Seðlabankans með rekstrarumgjörð þeirra. Kerfislega mikilvægir innviðir skiptast samkvæmt reglunum í grunninnviði og kjarnainnviði.
Með reglum um atvikamiðstöð fjármálainnviða er hlutverk atvikamiðstöðvar og þátttakenda hennar skilgreint, en henni er ætlað að gegna lykilhlutverki í skjótum og öruggum upplýsingaskiptum og samhæfingu fjármálakerfisins vegna net- og rekstraratvika í fjármálakerfinu.
Reglurnar eru settar í þágu aukins viðnámsþróttar í fjármálakerfinu og þar með rekstraröryggis í greiðslumiðlun. Ráðgert er að reglurnar birtist á vef Stjórnartíðinda á næstu dögum og taka þær gildi degi eftir birtingu.