Fréttatilkynning EIOPA um NOVIS – varað við fjárhagslegu tjóni þar sem slitastjóri hefur ekki enn verið skipaður
Seðlabanki Íslands vekur athygli á fréttatilkynningu sem birtist í dag á vefsíðu EIOPA (evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar).
Í fréttatilkynningu EIOPA er að finna upplýsingar í formi spurninga og svara fyrir viðskiptavini NOVIS um stöðu félagsins, en starfsleyfi þess var afturkallað af Seðlabanka Slóvakíu í júní 2023. EIOPA vekur athygli viðskiptavina NOVIS m.a. á hugsanlegri áhættu við áframhaldandi iðgjaldagreiðslur til félagsins og áhrifum af mögulegri skiptameðferð félagsins. Seðlabanki Slóvakíu hefur haft takmarkaðar eftirlitsheimildir gagnvart NOVIS allt frá afturköllun starfsleyfisins.
Af framangreindum sökum liggja ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu NOVIS. Seðlabanki Íslands getur því ekki fullyrt að fjárhagsstaða NOVIS sé nægilega trygg til að mæla með að vátryggingartakar haldi áfram iðgjaldagreiðslum til félagsins.
Meðal dreifingaraðila sem selt hafa afurðir NOVIS hérlendis er vátryggingamiðlunin Tryggingar og ráðgjöf ehf. Í ljósi upplýsinga sem eru aðgengilegar opinberlega, ýmist í fyrirtækjaskrá Slóvakíu, á heimasíðu NOVIS og í ársreikningaskrá telur Seðlabankinn rétt að geta að félagið TRBO ehf. hefur haldið á um 4% eignarhlut í NOVIS frá árinu 2018 og að minnsta kosti til ársins 2022, sbr. ársreikning félagsins en ekki liggja fyrir nýrri upplýsingar. Eigendur Trygginga og ráðgjafar ehf., sem eru jafnframt ýmist núverandi eða fyrrverandi stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félagsins, eru eigendur TRBO ehf. í gegnum óbeint eignarhald samkvæmt nýjasta fyrirliggjandi ársreikningi síðarnefnda félagsins. Þá hefur stjórnarmaður Trygginga og ráðgjafar ehf. setið í stjórn (e. Supervisory Board) NOVIS frá árinu 2022.
Seðlabankinn vísar að öðru leyti til upplýsingasíðu bankans um afturköllun starfsleyfis NOVIS og fyrri fréttatilkynninga bankans um málefni NOVIS:
Frekari upplýsingar vegna afturköllunar starfsleyfis NOVIS dags. 11. apríl 2024
Spurt og svarað um afturköllun starfsleyfis NOVIS dags. 8. júní 2023
Seðlabanki Slóvakíu afturkallar starfsleyfi NOVIS dags. 6. júní 2023
Frekari upplýsingar um ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu vegna brota NOVIS dags. 23. febrúar 2022
Seðlabanki Slóvakíu tekur á ný ákvörðun um brot NOVIS og takmarkar tímabundið frjálsa ráðstöfun eigna félagsins dags. 26. janúar 2022
Ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu um brot NOVIS og úrbótakröfur dags. 28. apríl 2021
Upplýsingar um stöðu NOVIS dags. 25. febrúar 2021
Upplýsingar um ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu um tímabundnar takmarkanir á frjálsri ráðstöfun eigna NOVIS dags. 13. nóvember 2020