logo-for-printing

Alþjóðlegt samstarf

Seðlabanki Íslands gegnir veigamiklum skyldum fyrir íslenska ríkið í alþjóðlegu fjármálasamstarfi við aðra seðlabanka og fjölþjóðlegar stofnanir á sviði efnahags- og peningamála. Hér um ræðir meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), Alþjóðagreiðslubankann (BIS), og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) ásamt evrópskum eftirlitsstofnunum.

 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS)

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund) hefur það að markmiði að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir hönd íslenska ríkisins.

 

Alþjóðagreiðslubankinn (BIS)

Alþjóðagreiðslubankinn í Basel Sviss (e. BIS – Bank for International Settlements) var stofnaður 1930 og er elsta alþjóðlega fjármálastofnunin í heimi. Alþjóðagreiðslubankinn í Basel er í eigu fjölmargra seðlabanka. Hann er í senn banki seðlabankanna og mikilvæg rannsókna- og greiningarstofnun á sviðum sem lúta að starfsemi seðlabanka, ekki síst peningamálum og varðandi fjármálastöðugleika. Bankinn er einnig vettvangur margháttaðs alþjóðlegs samstarfs seðlabanka og á sviði eftirlits með fjármálastarfsemi. Nægir í því sambandi að nefna undirbúning reglusetningar um eiginfjárhlutföll banka.
Seðlabanki Íslands er hluthafi í Alþjóðagreiðslubankanum í Basel. Fulltrúar Seðlabanka Íslands taka þátt í ýmsu samstarfi á vettvangi BIS.

 

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)

Efnahags- og framfarastofnunin er samstarfsvettvangur 38 aðildarríkja. Meginmarkmið OECD er að hvetja til sjálfbærs hagvaxtar og aukinna lífsgæða hjá aðildarríkjum sínum og um leið að viðhalda fjármálastöðugleika.

Efnahags- og framfarastofnunin varð til úr stofnun (e. Organisation for European Economic Co-operation OEEC ) sem var sett á laggirnar árið 1947 fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna og Kanada til að skipuleggja Marshall-aðstoðina. OECD tók við stafsemi OEEC árið 1961 og voru aðildarríkin þá 20 talsins.

Starfsmenn Seðlabanka Íslands taka reglulega þátt í starfi ýmissa nefnda á vettvangi OECD. Meðal þeirra eru efnahagsstefnunefndin og undirnefnd hennar, fjármagnsmarkaðsnefndin og sérfræðinganefnd um lánamál opinberra aðila. Sérfræðingar OECD koma reglulega til Íslands til viðræðna við fulltrúa stjórnvalda um framvindu efnahagsmála en hliðstæðar viðræður fara fram við öll aðildarríki OECD. Í kjölfar viðræðnanna eru gefnar út skýrslur sem lýsa mati stofnunarinnar á efnahagsaðstæðum. 

 

Evrópskar eftirlitsstofnanir (EBA, EIOPA, ESMA og ESRB)

Seðlabanki Íslands er þátttakandi í starfi evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði, þ.e. Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA), Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA). Þá er Seðlabankinn jafnframt þátttakandi í starfi Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) og undirhópa þess og hefur þannig aðgang að samevrópskum greiningum á kerfisáhættu. Seðlabankinn hefur á þessum vettvangi sömu réttindi og skyldur og eftirlitsstjórnvöld ríkja Evrópusambandsins að undanskildum atkvæðisrétti. Þátttaka í stjórnum (e. Board of Supervisors og General Board), fastanefndum og vinnuhópum evrópsku eftirlitsstofnananna gerir bankanum kleift að fylgjast vel með breytingum á Evrópulöggjöf á fjármálamarkaði og taka þátt í þróun hennar. Með þátttöku sinni leggur Seðlabankinn einnig sitt af mörkum til að tryggja samræmda framkvæmd Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þá styður þátttakan við innleiðingu nýrrar Evrópulöggjafar hér á landi, auðveldar hana og stuðlar að skilvirkri eftirlitsframkvæmd að innleiðingu lokinni.

Hér má finna tengla á vefi evrópsku eftirlitsstofnananna;