logo-for-printing

Gjaldeyrismál

Gjaldeyrisviðskipti á Íslandi eru frjáls nema annað leiði af lögum. Hið sama gildir um greiðslur og fjármagnshreyfingar milli landa. Þó er heimilt að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir alvarlega röskun á stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika.

  Um skipan gjaldeyrismála á Íslandi er fjallað um í lögum nr. 70/2021, um gjaldeyrismál. Með lögunum voru eldri lög um gjaldeyrismál nr. 87/1992 felld úr gildi og þar með þær eftirstæðu takmarkanir fjármagnshafta sem enn var að finna í þeim lögum og lutu að afleiðuviðskiptum. Jafnframt voru felld úr gildi lög um krónueignir sem háðar eru sérstökum takmörkunum (í daglegu tali hafa þau verið nefnd aflandskrónulögin) nr. 36/2016 og gilda því ekki lengur sérreglur um svokallaðar aflandskrónueignir sem lúta nú sömu reglum og aðrar krónueignir. Þá hafði setning laganna í för með sér brottfall ýmissa reglna og reglugerða sem tengdust fjármagnshöftunum með einum eða öðrum hætti. Lögin marka því kaflaskil en með þeim eru fjármagnshöft sem sett voru á í nóvember 2008 í kjölfar efnahagshrunsins að öllu leyti úr sögunni.

 Fjallað var um ný lög um gjaldeyrismál í rammagrein sem birtist í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika 2021/2. 

 

Milliganga um gjaldeyrisviðskipti

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um gjaldeyrismál er óheimilt að stunda milligöngu um gjaldeyrisviðskipti nema að hafa til þess heimild samkvæmt lögum. Milliganga um gjaldeyrisviðskipti er annars vegar að stunda gjaldeyrisviðskipti í atvinnuskyni fyrir eigin reikning eða gegn endurgjaldi og hins vegar að koma á gjaldeyrisviðskiptum milli aðila gegn endurgjaldi. Þeir aðilar sem hafa slíka heimild samkvæmt lögum eru, auk Seðlabanka Íslands sem stundar viðskipti með erlendan gjaldeyri og hefur milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. 27. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 einna helst viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrir greiðsluþjónustuveitendur ásamt mögulegum gjaldeyrisskiptastöðvum. Seðlabankinn getur þó jafnframt veitt heimild til þess að reka gjaldeyrismarkað sem felur í sér heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og er skilyrði slíks leyfis að starfræksla hans sé til þess fallin að auka gagnsæi og skilvirkni í verðmyndun á gjaldeyrismörkuðum.

 

Ráðstafanir í þágu þjóðhagsvarúðar

Afleiðuviðskipti

Reglur nr. 412/2022, um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli, tóku gildi 8. apríl 2022. Reglurnar takmarka heildarumfang afleiðuviðskipta viðskiptabanka þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli (afleiðubókum þeirra). Þessum takmörkum er einkum ætlað að koma í veg fyrir umfangsmikla útgáfu á skuldabréfum í krónum erlendis (svokölluðum jöklabréfum) sem gæti ein og sér valdið óstöðugleika en einnig til þess að takmarka óhóflega spákaupmennsku og stöðutöku í gjaldeyrisviðskiptum sem er almennt til þess fallin að stuðla að óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

 

Upplýsingagjöf til Seðlabankans

Upplýsingagjöf skv. 10. gr. laga um gjaldeyrismál

Fjármálafyrirtækjum, greiðslustofnunum, rafeyrisfyrirtækjum og gjaldeyrisskiptastöðvum með starfsemi hér á landi og þeim sem stunda milligöngu um gjaldeyrisviðskipti er skv. 10. gr. laga um gjaldeyrismál skylt að tilkynna gjaldeyrisviðskipti sín, fjármagnshreyfingar á milli landa sem þeir annast eða móttaka og greiðslur á milli landa sem þeir annast eða móttaka til Seðlabanka Íslands á því formi sem Seðlabankinn ákveður. Samkvæmt reglum nr. 861/2022 um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál eru aðrir en innlendir viðskiptabankar undanþegnir þessari tilkynningarskyldu en innlendir viðskiptabankar fullnægja henni með reglulegri skýrslugjöf til Seðlabankans. Innlendum lögaðilum er auk þess skylt að tilkynna Seðlabanka Íslands sérstaklega um tiltekin viðskipti sem eiga sér stað án milligöngu fyrrnefndra tilkynningarskyldra aðila með skilum á eyðublaði í gagnaskilakerfi á þjónustuvef Seðlabankans eða með tölvupósti á ge.gagnaskil@sedlabanki.is. Hér á eftir eru tenglar á reglur og leiðbeiningar um þessa upplýsingagjöf.

 

Áður en reglur nr. 861/2022 tóku gildi var tilkynningarskyldu fullnægt um árabil með skráningu viðskipta í svokallað GV-kerfi sem Seðlabankinn rak í samstarfi við Reiknistofu bankanna. Upplýsingar um það kerfi er að finna hér:


Skýrslur viðskiptabanka um afleiðuviðskipti

Samkvæmt reglum nr. 412/2022 ber viðskiptabönkum að skila mánaðarlega skýrslum um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Það athugist að framangreind upplýsingagjöf kemur ekki í stað upplýsingagjafar til afleiðuviðskiptaskráa skv. lögum nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.

  • Leiðbeiningar við reglur nr. 412/2022. (Í vinnslu)
  • Eyðublað (skema) vegna skýrslugjafar um afleiðuviðskipti skv. reglum nr. 412/2022. (Í vinnslu)

 

Lög

Ný lög um gjaldeyrismál, nr. 70/2021, tóku gildi í júní 2021. Fram að þeim tíma giltu lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál með síðari breytingum.

 

Reglur

Seðlabankinn hefur í gegnum tíðina sett ýmsar reglur á grundvelli reglusetningarheimilda laga um gjaldeyrismál, fyrst laga nr. 87/1992 og síðar laga nr. 70/2021. Þær sem enn eru í gildi eru:

 

Hafa samband

Frekari upplýsingar um gjaldeyrismál má fá með því að senda fyrirspurn á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is.