Eftirprentanir og falsanir
Eins og fram kemur í lögum um Seðlabanka Íslands hefur hann „einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.“ (Sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 36/2001).
Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 segir m.a. um peningafals og önnur brot er varða gjaldmiðil:
„Hver, sem falsar peninga í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, svo og hver sá, sem í sama skyni aflar sér eða öðrum falsaðra peninga, skal sæta fangelsi allt að 12 árum." (150. gr.)
Ennfremur segir í þessum lögum:
„Það varðar sektum að búa til, flytja inn eða dreifa út meðal manna hlutum, sem að gerð og frágangi líkjast mjög peningum eða verðbréfum, sem ætluð eru til þess að ganga manna á milli.“ (153. gr.)
Notkun eftirmynda peningaseðla
Gerðar hafi verið athugasemdir við notkun eftirmynda peningaseðla í auglýsingum og öðrum tilgangi, og í sumum tilvikum skrumskælingu peningaseðla í auglýsingaskyni. Seðlabanki Íslands hefur sett fram nokkrar meginlínur varðandi hvers konar notkun eftirmynda peningaseðla hann sættir sig. Eftirfarandi atriði gilda um notkun slíks myndefnis í prentuðu máli:
- Seðlabanki Íslands hefur einkarétt lögum samkvæmt til að gefa út íslenska peningaseðla og setur því fram eftirfarandi leiðbeiningar um gerð eftirmynda af slíkum peningaseðlum í því skyni að ekki verði villst á þeim og raunverulegum íslenskum peningaseðlum.
- Nota má eftirmyndir peningaseðla til að lýsa prentað mál, bæklinga, auglýsingar o.þ.h., en gæta verður þess með öllum ráðum að ekki verði villst á slíkum eftirmyndum og raunverulegum peningaseðlum.
- Seðlabankinn mælir með því, til að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun, að eftirmyndir peningaseðla, sem notaðar eru í auglýsingaskyni, séu annað tveggja mest í hálfri stærð eða a.m.k. tvöfaldri stærð raunverulegs peningaseðils. Aðeins má sjást allt að þriðjungur peningaseðils sé hann í raunverulegri stærð.
- Bent er á að ekki er heimilt að breyta myndefni íslenskra peningaseðla og birta skrumskældar eftirgerðir þeirra, hvort sem er í prentuðu máli eða í ljósvakamiðlum. Slíkt fer í bága við höfundarheiður höfundar myndefnis peningaseðlanna, sbr. ákvæði gildandi höfundalaga.
- Áréttað skal hér, að það er m.a. refsivert skv. XVI. kafla almennra hegningarlaga að endurgera (falsa) peningaseðla í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldmiðli.
- Sé ætlunin að birta myndir af peningaseðlum t.d. í fræðsluskyni á einhvern þann hátt sem ekki fellur að leiðbeiningum þessum skal sækja um skriflegt leyfi til Seðlabankans með eðlilegum fyrirvara.
Leiðbeiningar þessar gefa auglýsendum marga möguleika til að nýta myndefni peningaseðla á eðlilegan hátt.