Málstofa verður haldin þriðjudaginn 15. febrúar kl. 15:00 í fundarsal Seðlabankans, Sölvhóli.
Frummælandi er Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans.
Efni málstofunnar er: „Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti“
Ágrip:
Á málstofunni verður efni skýrslunnar „Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti“ kynnt, en hún hefur nýlega verið birt. Skýrslan er framlag Seðlabankans í umræðuna sem nú fer fram um bætt regluverk og eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi í kjölfar fjármálakreppunnar. Eins og víða erlendis, hefur Alþingi lýst vilja sínum til að endurskoða löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi og á sviði seðlabanka. Fjallað verður um fjármálakerfið og áhrif þess á efnahagslífið, bæði jákvæð áhrif á hagvöxt og margvíslegar áhættur, hlutverk og verkefni fjármálaeftirlits og seðlabanka, um mismunandi aðferðir og skipulag við fjármálaeftirlit í heiminum og þar með talið þær hugmyndir sem nú eru efst á baugi varðandi bætt fjármálaeftirlit. Ein megin ályktunin sem dregin hefur verið af reynslu við fjármálaeftirlit undanfarin ár er að setja þurfi svokallaða þjóðhagsvarúð í forgang við hönnun nýrrar umgjarðar fyrir fjármálaeftirlit. Helstu stýritæki á sviði þjóðhagsvarúðar sem nú eru til skoðunar eru breytileg eiginfjárhlutföll, lausafjárkvaðir og breytileg hámörk veðsetningarhlutfalla. Hugmyndir um áhrif slíkra stýritækja eru í mótun og markast af þekkingu á samspili fjármálastarfsemi og efnahagslífsins. Áhersla á þjóðhagsvarúð gerir kröfu um mun meiri þjóðhagslega greiningu í fjármálaeftirliti en áður. Nokkrar niðurstöður um skipulag fjármálaeftirlits sem gæti hentað á Íslandi verða kynntar og ræddar.