Fara beint í Meginmál

Málstofa um jafnvægisatvinnuleysi

ATH: Þessi grein er frá 12. nóvember 2013 og er því orðin meira en 5 ára gömul.

Þriðjudaginn 12. nóvember kl. 15:00 verður haldin málstofa í fundarsal Seðlabankans, Sölvhóli. Frummælandi er Bjarni G. Einarsson, hagfræðingur við rannsóknar- og spádeild hagfræði og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands.

Efni málstofunnar er „Hversu „náttúrulegt“ er náttúrulegt atvinnuleysi? Heldni í atvinnuleysi á Íslandi“.

Á málstofunni verður farið yfir niðurstöður rannsóknarritgerðar nr. 64 „How „natural“ is the natural rate? Unemployment hysteresis in Iceland“ eftir Bjarna G. Einarsson og Jósef Sigurðsson.

Í ritgerðinni er jafnvægisatvinnuleysi á Íslandi metið með tveimur aðferðum, annarsvegar svokallaðri ítrunaraðferð og hinsvegar Kalman síu. Matið sýnir að jafnvægisatvinnuleysi hækkaði verulega í kjölfar fjármálakreppunnar og var 5½% samkvæmt fyrri aðferðinni og 7% samkvæmt þeirri síðari, þegar það varð mest árið 2011. Niðurstöðurnar benda til þess að jafnvægisatvinnuleysi hafi verið 5,2-5,6% undir lok síðasta árs, og að það gæti orðið 4,2% árið 2015.

Hversu varanleg áhrif fjármálakreppan mun hafa á raunhagkerfið veltur að nokkru leyti á áhrifum kreppunnar á atvinnuleysi og þar með á vinnumarkaðinn í heild. Áhrifaþættir jafnvægisatvinnuleysis eru því skoðaðir. Sérstaklega er kannað hvort kerfislægar breytingar hafi orsakað aukið jafnvægisatvinnuleysi eða hvort aukningin starfi af breytingum á mældu atvinnuleysi og þar með heildareftirspurn, þ.e. hvort vísbendingar séu um að heldni (e. hysteresis) sé til staðar í atvinnuleysi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þótt að kerfisþættir eins og breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu skipti máli skýri heldni að mestu breytingar á jafnvægisatvinnuleysi. Það bendir til að peningastefnan geti einnig haft langtímaáhrif á atvinnuleysi. Heldni í atvinnuleysi hefur því í för með sér að enn mikilvægara er að ríkisfjármál, kjarasamningar og launaþróun séu í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Myndist verðbólguþrýstingur verður seðlabanki að bregðast við með auknu aðhaldi sem getur valdið hærra jafnvægisatvinnuleysi.

Rannsóknarritgerðina má nálgast hér: Working papers