Tengt efni
Fjármálastöðugleiki í hnotskurn
Innlendir eignamarkaðir hafa tekið verulega við sér á sl. 12 mánuðum, bæði hefur velta aukist
umtalsvert og eignaverð hækkað hratt. Margt bendir til að ójafnvægi fari hratt vaxandi á eignamörkuðum hér á landi og óvissa um framhaldið hefur aukist. Hlutabréfaverð hefur hækkað um 57% á síðustu 12 mánuðum og er á suma mælikvarða orðið frekar hátt. Til að mynda mælist frávik þess frá langtímaleitni nú meira en það hefur verið frá árinu 2008. Fasteignaverð hefur einnig hækkað mikið, árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 11,6% að raunvirði í lok ágúst, um 10% á fjölbýli og um 15% á sérbýli. Auglýstar eignir voru 45% færri í ágúst sl. en á sama tíma fyrir ári, meðalsölutími er nálægt sögulegu lágmarki og hátt hlutfall íbúða selst yfir ásettu verði. Frávik íbúðaverðs frá langtímaleitni er nú tæplega 14% og hefur ekki mælst hærra síðan árið 2008. Verðhækkanir á markaðnum hafa einnig verið umfram ákvarðandi þætti, s.s. launaþróun og byggingarkostnað.
Þrátt fyrir mikla útlánaaukningu til heimila á síðustu mánuðum hafa bankarnir viðhaldið mjög
sterkri lausafjárstöðu. Í lok ágúst sl. höfðu bankarnir til ráðstöfunar um 290 ma.kr. umfram lágmarks lausafjárkröfu Seðlabankans og hafði sú fjárhæð hækkað um 43 ma.kr. á sl. 12 mánuðum. Vaxtaálag á erlendar markaðsskuldabréfaútgáfur bankanna hefur áfram verið lágt og bankarnir hafa greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Heldur hefur dregið úr markaðsfjármögnun þeirra í krónum.
Rekstraráhætta í fjármálainnviðum, einkum rafrænni smágreiðslumiðlun, hefur raungerst í
nokkrum tilvikum á síðustu vikum. Nauðsynlegt er að hver og einn rekstraraðili hugi að öryggi
sinna kerfa og viðeigandi viðbúnaðaráætlunum sem tryggi samfelldan rekstur. Jafnframt þarf
að treysta umgjörð kerfisins í heild og samhæfa aðgerðaáætlanir til að bregðast við aukinni
áhættu á þessu sviði. Rafræn innlend smágreiðslumiðlun fer í dag að stórum hluta í gegnum
erlenda kortainnviði. Til staðar þarf að vera óháð innlend rafræn smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega innviði. Slík lausn gæti m.a. þjónað sem varaleið í innlendri smágreiðslumiðlun á tímum neyðar.
Rammagreinar
| Rammagreinar | Bls. |
|---|---|
| Greiðslubyrðarhlutfall | 23 |
| Hlutabréfamarkaður og fjármálastöðugleiki | 26 |
| Reglur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar lánastofnana | 36 |
| Heildarendurskoðun lagaumgjarðar gjaldeyrismála og fullt afnám fjármagnshafta | 37 |